Enski boltinn

Allt troðið á Anfield en Pep skilur ekkert í tómu sætunum hjá Man. City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fjölskylda af stuðningsmönnum Manchester City mætt á leik á Ethiad. Það hefur verið nóg af tómum sætum í síðustu leikjum liðsins.
Fjölskylda af stuðningsmönnum Manchester City mætt á leik á Ethiad. Það hefur verið nóg af tómum sætum í síðustu leikjum liðsins. Getty/ Stu Forster
Titilbarátta Manchester City og Liverpool stefnir í að verða eins sú rosalegasta á síðustu árum en liðin hafa skipst á að taka toppsætið af hvoru öðru á undanförnum vikum. Áhugi stuðningsmanna félaganna á liðum sínum er aftur á móti ekki alveg sá sami.

Það er eitt sem breskir blaðamenn hafa rekið augun í. Á meðan það er gríðarlegur áhugi á öllum leikjum Liverpool á Anfield þá gengur ekki nærri því eins vel hjá Manchester City að fá áhorfendur á leik liðsins.

Stuðningsmenn Liverpool lifa í voninni um að enda 29 ára bið eftir Englandsmeistaratitlinum en stuðningsmenn City eru kannski orðnir smá ofdekraðir eftir alla velgengni liðsins á síðustu árum.

Umræðan hefur skapast í breskum fjölmiðlum eftir að Manchester City náði ekki að selja alla miðana sem félagið fékk á undanúrslit ensku bikarkeppninnar um helgina. City vann þá 1-0 sigur á Brighton og tryggði sér sæti í úrslitaleiknum.

Manchester City fékk 35 þúsund miða á leikinn fyrir sína stuðningsmenn en varð að senda tvö þúsund til baka. Grein í Manchester Evening News segir að City hafi aðeins náð að selja 30 þúsund miða til sinna stuðningsmanna. Á leiknum mátti síðan sjá áberandi mikið af tómum sætum.  



Simon Stone hjá BBC Sport spurði Pep Guardiola út í það af hverju City gengi svona illa að selja miða miðað við að liðið er í titilbaráttu á fjórum vígstöðum og er að margra mati skemmtilegasta liðið í ensku deildinni. Undanúrslitaleikur á Wembley ætti ekki að vera daglegt brauð hjá félögum.

„Ég veit ekki hver ástæðan er,“ svaraði Pep Guardiola og bætti við: „Kannski getur klúbburinn svarað þessu betur en ég. Þegar þeir geta mætt þá mæta þeir. Ef þeir eru uppteknir þá koma þeir ekki. Ég veit ekki af hverju,“ bætti Guardiola við.  

Stemmningin á Anfield er engu lík en á sama tíma er fullt af tómum sætum á Etihad leikvanginum eins og sást í leiknum á móti Cardiff í síðustu viku. Það er því ekkert skrítið að sumir klóri sér í hausnum yfir þessu.

Það er vissulega kostnaðarsamt að styðja lið sem er í úrslitaleikjum á öllum vígstöðvum og ferð frá Manchester til London kostar örugglega sitt. Það er hætt við því að margir City-menn hafi verið að „spara“ fyrir úrslitaleikinn enda ekki miklar líkur á því að Manchester City tapaði þessum undanúrslitaleik.

Hver sé skýringin er þá munu enskir blaðamenn örugglega fylgjast mjög vel með mætingu stuðningsmanna Manchester City á leikina sem eftir eru á tímabilinu. Það er nefnilega eitthvað óeðlilegt við það að lið sem á möguleika á hinni sögulegu fernu trekki ekki meira að en það virðist gera samkvæmt þessum fréttum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×