Viðskipti innlent

Þrír fjárfestar bítast um meirihluta í HS Orku

Hörður Ægisson skrifar
Söluferli á 54 prósenta hlut kanadíska félagsins Innergex í HS Orku hófst um miðjan október í fyrra.
Söluferli á 54 prósenta hlut kanadíska félagsins Innergex í HS Orku hófst um miðjan október í fyrra.
Þrír fjárfestar bítast um tæplega 54 prósenta eignarhlut í HS Orku, sem gæti verið metinn á nærri 40 milljarða íslenskra króna, eftir að frestur til að gera skuldbindandi tilboð í hlut Innergex í íslenska orkufyrirtækinu rann út föstudaginn 8. mars síðastliðinn. Samkvæmt heimildum Markaðarins er um að ræða sjóð í stýringu ástralska fjárfestingabankans Macquarie, íslenska félagið Arctic Green Energy, sem er meðal annars í eigu kínverskra fjárfestingafélaga, og breska fjárfestingarfyrirtækið Ancala Partners en það sérhæfir sig í innviðafjárfestingum.

Formlegt söluferli á eignarhlut Innergex í HS Orku, sem er meðal annars eigandi að 30 prósenta hlut í Bláa lóninu, hófst um miðjan október í fyrra. HS Orka er þriðji stærsti raforkuframleiðandi landsins og jafnframt eina orkufyrirtækið á Íslandi sem er í eigu einkafjárfesta.

Macquarie Group, sem hefur komið að fjárfestingum í grænni orku fyrir um 15 milljarða Bandaríkjadala frá 2010, rekur meðal annars sjóð sem fjárfestir í endurnýjanlegum orkugjöfum og innviðum. Fulltrúar sjóðsins hafa áður horft til innviðafjárfestinga hér á landi en fram hefur komið í fjölmiðlum að þeir hafi fundað með embættismönnum í fjármálaráðuneytinu vorið 2017 í tengslum við áhuga þeirra á að koma að rekstri Keflavíkurflugvallar.

Arctic Green Energy, sem er að stærstum hluta í eigu Hauks Harðarson, stjórnarformanns og stofnanda félagsins, hefur unnið að því að þróa og reka umhverfisvænar jarðhitaveitur í Asíu. Í fyrra samdi fyrirtækið við kínversku fjárfestingafélögin CITIC Capital og China Everbright, ásamt Þróunarbanka Asíu, um fjármögnun upp á 150 milljónir dala, jafnvirði 17 milljarða króna á núverandi gengi. Við þá fjármögnun bættist China Everbright við hluthafahóp Arctic Green Energy en CITIC Capital hefur verið hluthafi í fyrirtækinu frá 2015.

Í fjárfestakynningu vegna söluferlisins, sem ber heitið Project Thor, kemur fram að áætlaður hagnaður HS Orku fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) á árinu 2019 sé 31 milljón dala. Gert er ráð fyrir að EBITDA félagsins muni hins vegar nærri tvöfaldast og verða um 60 milljónir dala á árinu 2023.

Aðrir hluthafar HS Orku eru samlagshlutafélagið Jarðvarmi, sem er í eigu fjórtán íslenskra lífeyrissjóða, með 33,4 prósenta hlut og fagfjárfestasjóðurinn ORK með 12,7 prósenta hlut. Svissneska fjárfestingarfélagið DC Renewable Energy, sem er í eigu Bretans Edmunds Truell sem hefur lengi unnið að því að koma á sæstreng á milli Íslands og Bretlands, gekk frá samkomulagi um kaup á hlut ORK í byrjun október á liðnu ári.

Þau eru hins vegar ekki endanlega frágengin, samkvæmt heimildum Markaðarins, þar sem Truell hefur ekki greitt fyrir hlutinn að fullu. Miðað við kaupverðið á hlut ORK, sem nemur rúmlega níu milljörðum króna með árangurstengdum greiðslum, er markaðsvirði HS Orku í dag um 72 milljarðar.

Hagnaður HS Orku, sem á og rekur orkuver í Svartsengi og á Reykjanesi, nam 4.588 milljónum á árinu 2017. Heildareignir voru 48,4 milljarðar og eigið fé félagsins um 35,5 milljarðar.

Ráðgjafar Innergex í söluferlinu eru kanadíski bankinn Bank of Montreal og íslenska ráðgjafarfyrirtækið Stöplar Advisory.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×