Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Haukar 27-29 | Haukar með þriggja stiga forskot

Arnar Helgi Magnússon skrifar
vísir/bára
Hleðsluhöllin var troðfull þegar Selfoss og Haukar áttust við í afar mikilvægum leik í Olís-deildinni í kvöld. Lætin í húsinu voru mikil og það má segja að það hafi verið úrslitakeppnis-bragur yfir þessum leik. Færri komust að en vildu í Hleðsluhöllina og þurftu því nokkrir áhugmenn um handbolta að snúa við og horfa á leikinn í sjónvarpinu.

Fyrstu mínútur leiksins einkenndust af tæknifeilum hjá báðum liðum. Það var ljóst frá fyrstu mínútu að spennustigið var hátt og tók það leikmenn nokkrar mínútur að ná öllum sínum vopnum.

Leikurinn var jafn í upphafi og skiptust liðin á að ná forystunni. Selfyssingar komust þremur mörkum yfir þegar skammt var til hálfleiks. Haukar náðu að minnka muninn og hálfleikstölur voru 15-13, heimamönnum í vil.

Selfyssingar komu ekki jafn ferskir út í síðari hálfleik. Haukar nýttu sér það og gengu á lagið. Þegar rúmlega sex mínútur voru liðnar af síðari hálfleik höfðu gestirnir tekið forystu. Daníel Þór Ingason kom frábær út í síðari hálfleikinn og skoraði þrjú mörk í upphafi hans.

Áfram héldu liðin að skiptast á að hafa forystuna þangað til að rúmar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Selfyssingar köstuðu þá boltanum frá sér trekk í trekk og tóku óskynsamlegar ákvarðanir. Haukar náðu þriggja marka forystu og sigldu sigrinum að lokum heim, lokatölur 27-29.

Eftir sigurinn í kvöld hafa Haukar þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar þegar einungis þrír leikir eru eftir af deildinni. Selfyssingar halda áfram að elta.

Af hverju unnu Haukar?

Selfyssingar fóru að taka óskynsamlegar ákvarðanir þegar mest á reyndi undir lok leiks. Haukarnir með reynslumeira lið og það er hreinlega spurning hvort að það hafi haft eitthvað að segja en eins og fyrr segir var spennustigið hátt, mikið undir og Hleðsluhöllin hefur sjaldan eða aldrei verið jafn hávær.

Hverjir stóðu uppúr?

Elvar Örn stóð að venju uppúr í liði Selfyssinga. Hann skoraði níu mörk úr leiknum en hann þurfti fjórtán skot til. Sverrir Pálsson var sterkur varnarlega með tíu löglegar stöðvanir.

Hjá Haukum var Daníel Þór Ingason atkvæðamestur með sex mörk. Flest komu þau í síðari hálfleik. Orri Freyr Þorkelsson var flottur í horninu, skoraði fimm mörk úr sex tilraunum.

Hvað gekk illa?

Markmennirnir í leiknum náðu sér ekki á strik, hvorki hjá Selfyssingum né hjá Haukum, þó svo að Grétar hafi varið nokkra mikilvæga bolta í síðari hálfleik. Selfyssingum gekk illa að halda haus í lokin og það varð þeim að falli.

Hvað gerist næst?

Bæði lið verða í eldlínunni næsta laugardag. Haukar fá Aftureldingu í heimsókn í Hafnarfjörðinn á meðan að Fram tekur á móti Selfyssingum í Safamýri. Sá leikur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 4. 

Gunnar Magnússonvísir/bára
Gunni Magg: Lykillinn að ná að stoppa Elvar

„Þetta var bara flottur sigur, ótrúleg liðsheild. Það var ótrúlegt hvað við vorum sterkir sama hvað bjátaði á. Við fáum ekki eitt vítakast í leiknum og við fáum heldur ekki einu sinni yfirtölu. Þetta er ótrúlegur útivöllur á móti frábæru liði,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka,eftir sigurinn gegn Selfyssingum í kvöld.

„Mér fannst við ná að svara öllu og stoppa þá. Það var lykill. Ég verð að hrósa öllum okkar stuðningsmönnum sem að komu í kvöld. Þetta var magnað.“

Það voru margir tæknifeilar í fyrri hálfleik og við hentum boltanum útaf sirka fimm sinnum, Þetta voru bara glórulausir feilar sem að þeir þurftu ekki einu sinni að hafa fyrir að fá okkur í. Við löguðum það í seinni hálfleik og náðum að þétta vörnina. Síðan náum við að stoppa Elvar í síðari hálfleik og það var lykillinn að því að klára þá. “

Eins og fyrr segir var uppselt í Hleðsluhöllina í kvöld og var stemningin eftir því.

„Umgjörðin hérna á Selfossi er frábær. Það var stútfullt hús og væntanlega uppselt. Auðvitað var spennustigið hátt, þetta var alvöru leikur. Ég held samt að gæðin hafi verið góð.“

Haukar eiga nú þrjá leiki eftir í deildinni og eru með deildarmeistaratitilinn í höndum sér.

„Það er bara Afturelding á laugardag og nú förum við að undirbúa okkur fyrir það, það er nóg eftir.“

Patrekur Jóhannessonvísir/skjáskot
Patti: Ég er enginn vitleysingur og ekki leikmennirnir heldur

„Þetta var svekkjandi. Við spiluðum vel en áttum síðan í helvíti miklum vandræðum síðustu tíu mínúturnar,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfyssinga, eftir tapið gegn Haukum í kvöld.

„Þetta var bara jafn leikur þangað til í restina. Þá fer Grétar að verja og við hittum ekki rammann. Ég myndi ekki segja að við höfum verið stirðir, við vorum bara ekki nógu klókir í þessum slúttum.“

„Þetta var frábær leikur. Hörku góður handbolti hjá báðum liðum. Stemningin var frábær og það var mjög vel mætt, ég þakka fólkinu okkar fyrir að hafa mætt.“

Patrekur segir að Selfoss sé ekki úr leik í baráttunni um deildarmeistaratitilinn.

„Þó að við hefðum unnið þennan leik þá hefði þetta heldur ekkert verið öruggt. Auðvitað eru Haukarnir með þremur fleiri stig en við og við þurfum núna að einbeita okkur að næsta leik sem er á móti Fram.“

Stillti Patrekur þessum leik sérstaklega upp sem úrslitaleik?

„Auðvitað er ég enginn vitleysingur og ekki leikmennirnir heldur. Við vitum alveg hvernig staðan er í deildinni, fyrir leikinn voru Haukar með 29 stig og við 28. Þetta var einn úrslitaleikur af þeim sem að eftir eru.“

Elvar Örn Jónsson, leikmaður Selfoss.vísir/Bára
Elvar Örn: Þeir eru með þetta í höndum sér

„Þetta voru dýr tvö stig sem að við töpuðum hér í kvöld. Mér fannst við vera að spila mjög góðan leik en síðan í síðari hálfleik fór Grétar að verja mikilvæga bolta og við náum ekki að stoppa þá í vörninni. Þeir ná síðan tveggja marka forskoti sem að við náum ekki að vinna upp.“

Elvar segir að það hafi verið geggjað að spila í Hleðsluhöllinni í kvöld.

„Þetta var bara geggjað að spila fyrir framan þessa stúku, það hefði ekki komist önnur manneskja hérna inn.“

Haukar hafa nú þriggja stiga forskot á Selfyssinga og viðurkennir Elvar að þeir séu komnir langleiðina með það að vinna deildarmeistaratitilinn. 

„Haukar eru komnir langleiðina með það. Við ætlum auðvitað að vinna okkar leiki sem eru eftir. Þetta er í þeirra höndum svo að við þurfum bara að bíða og sjá.“

Daníel Þór Ingasonvísir/bára
Daníel Þór: Of snemmt að óska okkur til hamingju

„Já. það er of snemmt að óska okkur til hamingju með deildarmeistaratitilinn .Við eigum þrjá leiki eftir og við þurfum að vinna þá og þá er þetta tryggt.“ sagði Daníel Þór eftir sigurinn á Selfossi í kvöld.

Hauka byrjuðu leikinn hægt en fundu síðan taktinn í síðari hálfleik.

„Við vorum að gera fullt af tæknifeilum en héldum samt haus og kláruðum þetta bara þannig.“

„Það var bara gaman að sjá troðfullt hús. Bæði lið fengu hörku stuðning og það var bara gaman að þessu.“

Næsti leikur Hauka er gegn Aftureldingu á laugardag. 

„Ég er bara spenntur fyrir þessum leikjum sem eru eftir. Þetta verða allt hörkuleikir og við ætlum að sjálfsögðu í þá til þess að sigra.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira