Bakþankar

Vinagarður

Þorbjörg Gunnlaugsdóttir skrifar
Leikskólinn Vinagarður skipar sérstakan sess í hjarta mínu eftir leikskólagöngu yngstu dótturinnar. Þar störfuðu dásamlegar konur öll árin sem skólinn var hluti af daglegu lífi fjölskyldunnar og ég verð alltaf þakklát fyrir atlætið sem hún fékk þar. (Og sömuleiðis fyrir fallegar flétturnar sem dóttirin fékk í leikskólanum en vankunnátta mín á því sviði er þannig að ég sagði stundum að pabbi hennar hefði fléttað hana.)

Það segir mikla sögu um manneskju að vinna í Vinagarði. Þess vegna get ég svo illa skilið fréttir af því að starfsmanni Vinagarðs hafi verið vísað úr landi. María leikskólastjóri sagði í fréttum að konan hefði náð vel til barn­anna og sinnt öll­um verk­um vel. All­ar væru þær þakklátar fyr­ir að hafa fengið að kynn­ast henni. Ekki var ástæðan sú að fækka þurfti starfsfólki, það vantar fólk í marga leikskóla eins og foreldrar í Reykjavík þekkja. Og sjálf vildi konan helst af öllu halda áfram að sinna börnunum. Hún var mikils metin af starfsfólki, börnunum og foreldrum þeirra. Börn­in kvöddu hana síðan öll, hvert og eitt, með því að faðma hana en án þess að vita að í framhaldinu kvaddi hún líka Ísland. Henni urðu nefnilega á þau mistök að hafa lent í stríðinu í Sýrlandi og að hafa ekki komið beinustu leið til Íslands á flótta sínum, heldur fyrst til Grikklands. Þar er þessi starfsmaður Vinagarðs núna.

Fréttirnar sögðu sorglega sögu þessarar konu, sem er nafnlaus í fjölmiðlum, og söguna af aðstæðum hennar. Íslenska sagan sem börnin í Vinagarði munu heyra þegar fram líða stundir er þó ekki síður sorgleg. Það er nefnilega sagan af því hverjar aðstæður eru á Íslandi gagnvart fólki í neyð.






×