Viðskipti innlent

Arion upplýsir ekki um niðurfærslu

Þorsteinn Friðrik Haraldsson skrifar
Arion banki hefur lánað WOW air nokkurt fjármagn.
Arion banki hefur lánað WOW air nokkurt fjármagn. Fréttablaðið/eyþór
Arion banki getur ekki veitt upplýsingar um hversu mikið bankinn hefur fært niður af skuldum flugfélagsins.

Arion banki sendi í gær frá sér tilkynningu þar sem fram kom að stöðvun rekstrar WOW air myndi ekki hafa veruleg bein áhrif á rekstrarafkomu bankans að teknu tilliti til annarra þátta í rekstrinum.

Fréttablaðið sendi fyrirspurn á Arion um það hve mikið bankinn hefði fært niður fram að rekstrarstöðvun WOW air og hvað hann sæi fram á að þurfa niðurfæra mikið til viðbótar. Fengust þau svör að bankinn gæti ekki veitt þær upplýsingar.

Í fjárfestakynningu á uppgjöri Arion banka fyrir fjórða ársfjórðung sem birt var 13. febrúar kom fram að skuldabréf tengd flugfélögum hefðu verið færð niður um 360 milljónir króna á fjórðungnum.

Þá kom fram í kynningu WOW air, sem Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins, hefur undir höndum, að heildarskuldbindingar flugfélagsins við bankann í evrum og dölum næmu alls 1,6 milljörðum króna á gengi dagsins í dag.

Í gærmorgun var öllu flugi WOW air til og frá landinu aflýst. Sagði í tilkynningu frá flugfélaginu að allt flug hefði verið stöðvað á meðan samningaviðræður við nýjan eigendahóp væru á lokametrunum. Skömmu síðar var greint frá því að félagið hefði hætt starfsemi.

Tíðindin hafa valdið töluverðum lækkunum á hlutabréfamarkaði. Lækkaði úrvalsvísitalan um 1,44 prósent ígær. Hins vegar hækkuðu hlutabréf í Icelandair um tæp 15 prósent.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×