Viðskipti innlent

Örlög WOW hafi ekki „veruleg bein áhrif“ á Arion

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Höfuðstöðvar Arion í Borgartúni.
Höfuðstöðvar Arion í Borgartúni. FBL/Arion
Stöðvun rekstrar WOW Air mun ekki hafa veruleg bein áhrif á afkomu Arion banka. Þessu er haldið fram í tilkynningu frá bankanum sem send var á Kauphöllina í morgun.

„Í ljósi umfjöllunar í fjölmiðlum um málefni WOW Air og skuldbindingar félagsins við Arion banka vill bankinn taka fram að stöðvun rekstrar WOW Air mun ekki hafa veruleg bein áhrif á rekstrarafkomu bankans að teknu tilliti til annarra þátta í rekstri bankans.“

Í tilkynningunni segir ennfremur að Arion banki verði fyrir einskiptiskostnaði vegna stöðunnar sem upp er komin hjá WOW. Hver sá kostnaður verður liggur þó ekki fyrir og mun væntanlega ekki gera það fyrr en afkoma Arion á fyrsta ársfjórðungi verður kynnt þann 8. maí næstkomandi.

Kostnaðurinn hafi þó ekki bein áhrif á reglulegar tekjur og almennan rekstrarkostnað bankans. Fjárhagsleg markmið bankans til næstu ára, t.a.m. varðandi þróun eiginfjár, eru því óbreytt.

Óvíst er þó um áhrif þess að WOW Air hættir starfsemi á ferðaþjónustu og íslenska hagkerfið í heild.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×