Umfjöllun og viðtöl: Fram 29-31 Selfoss | Seiglusigur hjá Selfyssingum

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
vísir/bára
Framarar tóku á móti Selfyssingum í dag í 20.umferð Olís deildar karla. Leikurinn fór fram í Safamýrinni og lauk með sigri gestanna, 29-31.

 

Það voru gestirnir sem byrjuðu betur en þeir komust í 3-1 áður en heimamenn tóku góðan kafla og komust í 10-8 áður en Patrekur Jóhannesson þjálfari Selfossar tók leikhlé.

 

Hann setti Sölva Ólafsson í markið á þessum tímapunkti og breytti um vörn og það svínvirkaði! Sölvi lokaði búrinu og Selfyssingar lokuðu í vörninni. Þeir breyttu stöðunni úr 10-8 í 15-18 og leiddu í hálfleik með 3 mörkum.

 

Munurinn hélst áfram í 3 mörkum lungann af seinni hálfleiknum en þegar 10 mínútur fór munurinn í 4 mörk og þá héldu margir að Selfoss myndi sigla þessu örugglega í hús. 

 

En Framarar eru ólseigir og þeir gáfust aldrei upp. Þeir minnkuðu muninn niður í 1 mark þegar aðeins rétt rúm mínúta var eftir.

 

Því miður fyrir heimamenn þá komust þeir ekki nær og Selfyssingar skoruðu síðasta markið í leiknum og unnu að lokum góðan seiglusigur, 29-31. Virkilega mikilvægur sigur og þeir eygja enn von um að landa deildarmeistaratitlinum. 

 

Framarar sitja eftir með sárt ennið en með sigri í dag hefðu þeir nánast gulltryggt sæti sitt í deildinni.

 

Af hverju vann Selfoss?

Þeir voru betri þegar mest á reyndi. Þeir voru yfirvegaðir og öruggir í sínum aðgerðum þegar Framarar þjörmuðu að þeim og þeir eru með mikil gæði í þeim Elvari og Hauki fyrir utan.

 

Sölvi Ólafsson á einnig hrós skilið en hann kom inn á eftir um það bil kortersleik og var á löngum tíma leiksins með yfir 50% markvörslu en datt aðeins niður undir lokin.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Fyrrnefndur Sölvi var flottur í marki Selfoss með 14 varin skot eða 42% markvörslu. Elvar Örn Jónsson var markahæstur með 7 mörk og Haukur Þrastarson kom næstur með 6 mörk.

 

Hjá heimamönnum var Andri Þór Helgason öflugur í horninu með 9 mörk en Þorsteinn Gauti Hjálmarsson kom næstur með 8 mörk. Viktor Gísli varði 15 skot eða 33% markvörslu.

 

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Framara hikstaði á tímabili í báðum hálfleikum en þeir voru alltaf mikið að kasta boltanum frá sér og taka ótímabær og slök skot. 

 

Þorgrímur Smári Ólafsson hefur átt betri leiki en hann skoraði 5 mörk úr 11 skotum en tapaði alltof mörgum boltum.

 

Hvað gerist næst?

Selfoss fær fallna Gróttumenn í heimsókn næstkomandi miðvikudag þegar þeir mæta í Hleðsluhöllina. Selfyssingar verða að vinna til að halda í möguleikann á deildarmeistaratitlinum.

 

Framarar fara í Mosfellsbæ og mæta Aftureldingu. Með sigri þar eiga þeir ennþá séns á að fara í úrslitakeppnina.

 

Patrekur: Þýðir ekkert að hugsa um titilinn

Patrekur Jóhannesson þjálfari Selfoss var sáttur með sigur sinna manna á ólseigum Frömurum í dag.

 

„Það er rétt hjá þér, þeir eru ólseigir Framararnir og voru að leggja sig 100% í þetta. Jafn leikur svosem en við náum yfirhöndinni í fyrri hálfleik þegar við skiptum um vörn og Sölvi var líka flottur.”

 

„Skorum 31 mark sem er mjög gott en samt erum við að fara með mörg dauðafæri, tek reyndar ekkert af Viktori. Hann varði oft mjög vel í markinu. Við vorum kærulausir í lokin og áttum að vera búnir að vinna þetta með 4-5 mörkum og loka þessu fyrr.”

 

„Tek hinsvegar ekkert af Frömurum, þeir eru mjög erfiðir viðureignar, alltaf.”

 

Patti var mjög ánægður með innkomu Sölva sem kom sínum mönnum inn í leikinn og var frábær sérstaklega í fyrri hálfleik.

 

„Sölvi var flottur í dag og Pawel byrjaði og ég hef trú á því að hann komi líka sterkur í lokin en þessir markmenn, þeir skipta sköpum í þessu og Sölvi var flottur fyrir okkur í dag.”

 

Varðandi deildarmeistaratitilinn sagði Patti að þeir ætluðu bara að einbeita sér að næsta verkefni og reyna vinna Gróttumenn í næstu umferð.

 

„Það þýðir ekkert að hugsa um titilinn. Ég var bara að hugsa um Fram og þeir eiga bara þá virðingu skilið. Við erum ekkert að fara hoppa yfir nein lið.”

 

„Eigum Gróttu næst og það verður erfiður leikur þó að fólk segi að við eigum að vinna þá. Það er ekkert gefið í þessu.”

 

„Þó að þeir hafi fallið í dag þá gæti það haft jákvæð áhrif á þá. Þeir mæta pressulausir og það eru hættulegir leikir og við þurfum að einbeita okkur vel að því verkefni.”

 

Patti sagði að lokum að hann þurfi að greina þennan leik vel og sjá hvað klikkaði í dag þrátt fyrir sigurinn en hann vill fá betri heildarframmistöðu í næsta leik.

 



Guðmundur Helgi: Við ætlum í úrslitakeppnina

Guðmundur Helgi Pálsson þjálfari Fram var skiljanlega svekktur eftir naumt tap sinna manna gegn Selfossi í dag.

 

„Sölvi varði helling í dag og það var munurinn á liðunum í dag. Við klikkum of mörgum dauðafærum og það er dýrt. En flott frammistaða hjá mínum mönnum í dag.”

 

„Við börðumst allan tímann í dag og fengum frábæran stuðning í stúkunni og þetta skiptir öllu máli. Því miður þá féll þetta ekki með okkur.”

 

Gummi er harður á því að liðið ætlar í úrslitakeppnina og til þess þarf liðið að vinna síðustu tvo leikina og treysta á hagstæð úrslit.

 

„Við erum ekkert að fara falla. Við ætlum í úrslitakeppnina og við verðum bara að vinna næstu 2 leiki til þess að komast þangað.”

 

„Ég er búinn að segja þetta allan tímann, við ætlum í úrslitakeppnina og ef ég þarf að draga þessa gæja þangað þá geri ég það.”

 

„Ef við spilum svona áfram þá getum við unnið öll lið og við verðum bara halda áfram og gera okkar besta.”

 

Gummi sagði að lokum að hann var ekki sáttur með tveggja mínútna brottvísunina sem Svavar Kári fékk í lokin en Framarar voru manni færri seinustu 2 mínútur leiksins.

 

„Mjög soft. Þetta er reynsla hjá Elvari, hann fer með bakið inn í Svavar og lætur sig detta. Þetta skiptir hellings máli líka. En eins og ég segi fyrst og fremst dauðafæri í dag en því miður klikkuðu dauðafærin í dag,” sagði Guðmundur Helgi að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira