Viðskipti innlent

Virði Kerecis gæti verið 11,4 milljarðar króna

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Kerecis þróar, framleiðir og markaðssetur vörur til meðhöndlunar á sköðuðum líkamsvef og húð.
Kerecis þróar, framleiðir og markaðssetur vörur til meðhöndlunar á sköðuðum líkamsvef og húð. Mynd/Kerecis
Miðað við nýleg viðskipti með hlutabréf í Kerecis er heildarvirði íslenska nýsköpunarfyrirtækisins allt að 95 milljónir dala, jafnvirði tæplega 11,4 milljarða króna, eftir því sem fram kemur í stuttri kynningu sem fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hefur útbúið vegna fyrirhugaðs hlutafjárútboðs Kerecis og send var fjárfestum í síðasta mánuði.

Í fjárfestakynningunni, sem Markaðurinn hefur undir höndum, er bent á að síðustu stóru viðskipti með eignarhlut í Kerecis hafi verið í maí í fyrra þegar um 250 þúsund hlutir gengu kaupum og sölum á gengi sem talið er að hafi verið 13 og 16 dalir á hlut. Námu viðskiptin því á bilinu 390 til 480 milljónum króna sé tekið mið af núverandi gengi krónunnar.

Kerecis, sem þróar, framleiðir og markaðssetur vörur til meðhöndlunar á sköðuðum líkamsvef og húð, hyggst afla sér allt að 7,5 milljónum dala, jafnvirði um 900 milljóna króna, með útgáfu nýs hlutafjár síðar í þessum mánuði.

Ætlunin er sú, eins og rakið er í fjárfestakynningunni, að nýir hluthafar leggi lækningavörufyrirtækinu til að minnsta kosti 2,5 milljónir dala og mögulega allt að 5 milljónir dala en að afgangurinn af hlutafjáraukningunni komi frá núverandi hluthöfum. Ekki liggur fyrir á hvaða gengi nýtt hlutafé verður selt.

Er hlutafjáraukningunni meðal annars ætlað að hraða markaðssetningu á vörum félagsins og stuðla að frekari vexti þess.

Tekjur Kerecis námu 4,6 milljónum dala, sem jafngildir um 552 milljónum króna, í fyrra borið saman við 1,7 milljónir dala árið 2017. Er gert ráð fyrir að tekjurnar meira en áttfaldist og verði komnar í 39 milljónir dala, jafnvirði 4,7 milljarða króna, á næsta ári, eftir því sem fram kemur í fjárfestakynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×