Körfubolti

Dæmir leik í EuroLeague í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Davíð Tómas Tómasson ræðir málin við Ívar Ásgrímsson, þjálfara Hauka, í leik í Domino´s deildinni í vetur.
Davíð Tómas Tómasson ræðir málin við Ívar Ásgrímsson, þjálfara Hauka, í leik í Domino´s deildinni í vetur. Vísir/Bára
Davíð Tómas Tómasson, einn af FIBA dómurum Íslands, fær flott verkefni í kvöld í Frakklandi.

Davíð Tómas dæmir þá leik í EuroLeague Women, Meistaradeild Evrópu, en leikurinn fer ram í gamla heimabæ Martins Hermannssonar, Charleville-Mézéres. KKí segir frá á heimasíðu sinni.

Í þessum leik munu heimastúlkur í Flammes Carolo Basket mæta liði TTT Riga frá Lettlandi.

TTT Riga hefur unnið 6 af 10 leikjum sínum í Meistaradeildinni og er í 3. sæti í riðlinum en fjögur efstu liðin komast áfram í átta liða úrslitin.

Flammes Carolo Basket er í 7. sæti í riðlinum með þrjá sigra í tíu leikjum en liðið er í baráttunni um sjötta sætið sem gefur þátttökurétt í EuroCup Women.

Þetta verður erfiður leikur fyrir heimastúlkur því TTT Riga vann fyrri leikinn í Lettlandi 93-62.

Davíð Tómas er þrítugur og hefur verið FIBA-dómari frá árinu 2017.

Aðaldómari leiksins í kvöld er Jelena Tomic frá Króatíu og meðdómari ásamt Davíð Tómasi verður Pedro Coelho frá Portúgal.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×