Viðskipti innlent

Friðrik úr forstjórastólnum hjá RB til Viss

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Friðrik Þór Snorrason, forstjóri RB tekur við starfi forstjóra Viss í janúar.
Friðrik Þór Snorrason, forstjóri RB tekur við starfi forstjóra Viss í janúar. Mynd/Viss
Friðrik Þór Snorrason hefur verið ráðinn forstjóri hjá Viss ehf. Og verður einn af meðeigendum félagsins. Friðrik lætur af störfum sem forstjóri Reiknistofu bankanna, RB, í lok janúar eftir átta ár í starfi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Viss.

„Eftir að hafa stýrt víðtækum breytingum hjá RB á liðnum átta árum fannst mér kominn tími til að leita á ný mið. Sprotastarfsemi og nýsköpun hefur alltaf heillað mig. Markmið okkar hluthafana hjá Viss er að stórefla þróun tæknilausna og þjónustu félagsins og að gera Viss að öflugum samstarfsaðila smásölu- og tryggingarfyrirtækja á Íslandi,“ er haft eftir Friðriki Þór í tilkynningu.

Guðmundur Pálmason stjórnarformaður Viss segir það jafnframt mikinn feng að hafa fengið Friðrik til liðs við Viss. Þá þakkar hann fráfarandi framkvæmdastjóra Viss, Baldri Baldurssyni, fyrir samstarfið á liðnum árum, að því er fram kemur í tilkynningu.

Friðrik var framkvæmdastjóri tækni- og rekstrarþjónustu fyrirtækisins Skyggnis (nú partur af Origo) 2008-2011 og áður framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Nýherja. Friðrik starfaði á árunum 2000-2003 sem forstöðumaður hagdeildar STRAX í Bandaríkjunum. Friðrik lauk BA-prófi í alþjóðasamskiptum frá University of Wisconsin í Bandaríkjunum 1994 og meistaraprófi í sama fagi frá London School of Economics í Englandi 1996.

Viss er sprotafyrirtæki sem sett var á laggirnar í árslok 2014. Félagið býður tryggingar fyrir farsíma. Þá var greint frá því í síðustu viku að Ragnhildur Geirsdóttir, fyrrverandi aðstoðarforstjóri WOW air, hefði verið ráðin forstjóri Reiknistofu bankanna og mun hún því taka við af Friðriki Þór.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×