Haukur hefur verið sautjándi maðurinn í íslenska hópnum og fylgst með leikjunum úr stúkunni en vegna meiðsla Arons Pálmarssonar var hann kallaður inn í hópinn fyrir leikinn í gær.
Sjá einnig:Haukur: Þetta er bara handbolti
Eftir að hafa fylgst með fyrstu mínútunum af bekknum þar sem ekkert gekk hjá íslenska landsliðinu fékk hann kallið hjá Guðmundi Guðmundssyni, landsliðsþjálfara, og spilaði í rúmar tuttugu mínútur.
Hann skoraði tvö mörk í leiknum og varð hann því yngsti leikmaður í sögu Íslands á stórmóti til þess að skora mark. Haukur er sautján ára, níu mánaða og sex daga en það eru engar smá kanónur sem hann var að slá við.
Á listanum eru til að mynda Ólafur Stefánsson og markahæsti leikmaður Íslands frá upphafi, Guðjón Valur Sigurðsson, en einnig eru til að mynda Aron Pálmarsson, Snorri Steinn Guðjónsson, Patrekur Jóhannesson og Dagur Sigurðsson á eftir Hauki á listanum.