Viðskipti innlent

Kaup Árvakurs og 365 á Póstmiðstöðinni samþykkt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Árvakur er útgáfufélag Morgunblaðsins.
Árvakur er útgáfufélag Morgunblaðsins. fréttablaðið/gva
Samkeppniseftirlitið hefur heimilað kaup Árvakurs hf. og 365 miðla hf. á Póstmiðstöðinni ehf., að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið og samrunaaðilar hafa gert sátt um. Póstmiðstöðin er dreifingaraðili Fréttablaðsins og annarra miðla.

Árvakur er útgáfufélag Morgunblaðsins og Torg ehf., dótturfélag 365 miðla, er útgáfufélag Fréttablaðsins.

„Um er að ræða stærstu dagblöð landsins. Póstmiðstöðin er félag sem starfar á sviði dreifingar, m.a. dagblaða og fjölpósts. Póstmiðstöðin er dreifingaraðili Fréttablaðsins og annarra miðla. Landsprent ehf. er dótturfélag Árvakurs og hefur m.a. sinnt dreifingu Morgunblaðsins og annarra miðla. Með samrunanum hyggjast samrunaaðilar sameina dreifikerfi sín fyrir dagblöð, tímarit og fjölpóst undir fyrirtækinu Póstmiðstöðinni sem þeir hyggjast reka sem dótturfélag,“ segir í tilkynningu á vef Samkeppniseftirlitsins.

Með þeim skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið og Árvakur og 365 miðlar hafa gert sátt um skuldbinda félögin sig til aðgerða til að bregðast við þeirri röskun á samkeppni sem samruninn myndi annars leiða til.

Samkvæmt tilkynningu Samkeppniseftirlitsins er meginefni sáttarinnar eftirfarandi:

„1.    Aðgangur og jafnræði: Póstmiðstöðinni verður óheimilt að útiloka aðila sem eru ótengdir samrunaaðilum frá viðskiptum vegna dreifingar á blöðum og prentefni. Skal Póstmiðstöðin verða við beiðni aðila um þjónustu nema málefnalegar ástæður mæli gegn því.

Póstmiðstöðin skal jafnframt gæta jafnræðis í verðlagningu og gæðum þjónustunnar gagnvart viðskiptavinum sínum.

2.    Almenn verðskrá: Póstmiðstöðin skal setja sér almenna verðskrá vegna dreifingar á blöðum og prentefni. Verðskráin skal gilda í viðskiptum Póstmiðstöðvarinnar við viðskiptamenn, þ. á m. Árvakur og 365 miðla.

3.    Aukin eftirspurn: Í fjórðu grein sáttarinnar segir að Póstmiðstöðin skuli leitast við að verða við ósk nýs aðila um þjónustu jafnvel þó viðskiptin kalli á verulegar breytingar, m.a. fjárfestingar, breytingar á núverandi dreifikerfi eða verulega aukningu starfsmanna.  

4.    Bann við samtvinnun þjónustu: Póstmiðstöðinni og eigendum hennar er óheimilt að gera það að skilyrði að viðskiptamenn Póstmiðstöðvarinnar kaupi jafnframt aðra þjónustu frá eigendum, s.s. prentþjónustu.

5.    Sjálfstæði stjórnenda og vernd trúnaðarupplýsinga: Framkvæmdastjóri og lykilstarfsmenn Póstmiðstöðvarinnar skulu vera sjálfstæðir í störfum sínum gagnvart Árvakri og 365 miðlum.

Jafnframt er í sáttinni kveðið á um aðgerðir til að vernda viðkvæmar viðskiptaupplýsingar viðskiptamanna Póstmiðstöðvarinnar.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×