Viðskipti innlent

Kvika selur bréf í Sýn fyrir rúmlega 100 milljónir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Höfuðstöðvar Sýnar eru við Suðurlandsbraut.
Höfuðstöðvar Sýnar eru við Suðurlandsbraut. Fréttablaðið/ANton
Kvika banki seldi í morgun rúmlega 2,5 milljón hluti í Sýn. Miðað við núverandi gengi bréfa félagsins er að ræða sölu upp á rúmlega 110 milljónir króna.

Viðskiptin voru flögguð í Kauphöllinni í morgun en fyrir daginn í dag átti Kvika 5,64 prósent hlut í Sýn. Eftir viðskiptin nemur hlutur Kviku í Sýn 4,76 prósentum, eða alls um 14,1 milljón hlutir.

Hlutabréfaverð í Sýn lækkaði töluvert í gær eftir að félagið sendi frá sér verri afkomuspá. Við lokun markaða í gær nam lækkunin um 9 prósentum.

Það sem af er þessum morgni hafa bréf í félaginu hins vegar hækkað lítillega - en þó ekki í nema 15 milljón króna viðskiptum og því ljóst að ekki er búið að færa Kviku-söluna formlega til bókar.

Áhrif sölunnar hafa því ekki enn komið fram í hlutabréfaverðinu.

Vísir er í eigu Sýnar


Tengdar fréttir

Sýn tekur dýfu í Kauphöllinni

Hlutabréf í fjarskiptafyrirtækinu Sýn hafa lækkað sem nemur 6,18 prósentustigum í 77 milljóna króna viðskiptum frá því markaðir opnuðu í morgun.

Afkomuspá Sýnar versnar enn frekar

Stjórnendur fjarskiptafyrirtækisins Sýnar segjast þurfa að lækka enn frekar afkomuspá fyrirtækisins fyrir árin 2018 og 2019.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×