Viðskipti innlent

Einn vildi 0,5 prósenta hækkun á stýrivöxtum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Már Guðmundsson seðlaankastjóri.
Már Guðmundsson seðlaankastjóri. Fréttablaðið/Stefán
Einn nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans greiddi atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra og vildi hækka vexti um 0,5 prósentur. Þetta kemur fram í fundargerð af síðasta vaxtaákvörðunarfundi nefndarinnar

Seðlabankastjóri lagði til að vextir bankans yrðu hækkaðir um 0,25 prósentur og var tillagan samþykkt. Í fundargerðinni segir að helstu rökin fyrir þessari hækkun hafi verið þau að töluverð óvissa sé um hversu hratt dragi úr hagvexti, og hvernig gengi krónunnar muni bregðast við hækkun vaxta og lækkun hlutfalls sérstakrar bindiskyldu.

Helstu rökin fyrir hækkun um 0,5 prósent voru hins vegar þau að verðbólguhorfur hefðu versnað töluvert og verðbólguvæntingar hækkað það mikið að 0,25 prósenta hækkun vaxta dygði ekki til, enda yrði taumhald peningastefnunnar áfram minna en það var á októberfundi nefndarinnar þrátt fyrir þessa vaxtahækkun. Þá væru raunvextir bankans afar lágir þegar haft er í huga að spenna er enn í þjóðarbúskapnum.

Nefndin var sammála um að ef verðbólguvæntingar héldu áfram að hækka og festust í sessi umfram markmið myndi það kalla á harðara taumhald peningastefnunnar. Aðrar ákvarðanir, einkum á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum, hefðu þá áhrif á hversu mikill fórnarkostnaður yrði í lægra atvinnustigi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×