Viðskipti innlent

Auknar tekjur og aukin aðsókn hjá Íslensku óperunni

Atli Ísleifsson skrifar
Steinunn Birna Ragnarsdóttir tók við starfi óperustjóra árið 2015.
Steinunn Birna Ragnarsdóttir tók við starfi óperustjóra árið 2015. vísir/vilhelm
Tekjur Íslensku óperunnar jukust um 23 prósent á milli ára og aðsóknin um 28 prósent. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn Íslensku óperunnar, en í nýjum ársreikningi fyrir starfsárið 2017 til 2018 kemur fram að rekstrarafkoman hafi verið jákvæð.

Samkvæmt upplýsingum frá Íslensku óperunni kemur fram að heildartekjur Óperunnar á starfsárinu hafi verið um 302 milljónir en voru 246 milljónir árið áður. Miðasölutekjur stofnunarinnar voru 57 milljónir, og hækkuðu um 13 milljónir milli starfsára. Þá hafi styrkir frá fyrirtækjum og félögum verið um 17 milljónir, en voru tæpar fjórar starfsárið 2016 til 2017.

Nokkur aukning var líka meðal þeirra sem sóttu viðburði Óperunnar, voru 16.844 starfsárið 2016 til 2018, en 13.470 starfsárið þar áður.

Í tilkynningunni kemur fram að Óperan fái árlegt framlag frá mennta- og menningarráðuneytinu samkvæmt samningi og afli eigin tekna með miðasölu og styrkjum. Fastur rekstrarkostnaður hafi verið lækkaður um 30 prósent og starfsemin endurskipulögð með það að markmiði að gera reksturinn stöðugri og fjölga uppsetningum óperuverkefna.

Haft er eftir Steinunni Birnu Ragnarsdóttur óperustjóra að hún hafi sett sér það markmið þegar hún tók við starfi óperustjóra árið 2015 að vanda listræna þáttinn í uppfærslunum þannig að Óperan stæðist vel alþjóðlegan samanburð. Sterkir listrænir viðburðir séu mestu verðmæti hverrar listastofnunar.

„Einnig einsetti ég mér að rekstur Óperunnar skyldi verða stöðugur og það er mjög gefandi að sjá þessi markmið verða að veruleika. Mig langar að nota tækifærið og fjölga verkefnum á starfsárinu ásamt því að efla fræðslustarf og skólaheimsóknir sem hefur ekki verið svigrúm til þess að sinna að ráði hingað til,“ segir Steinunn Birna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×