Viðskipti innlent

Móðurfélag Vodafone leggur drög að samruna í Færeyjum

Kjartan Kjartansson skrifar
Sýn hf. er móðurfélag Vodafone á Íslandi. Félagið undirbýr nú samruna dótturfélags síns í Færeyjum við færeyskt félag.
Sýn hf. er móðurfélag Vodafone á Íslandi. Félagið undirbýr nú samruna dótturfélags síns í Færeyjum við færeyskt félag. Vísir/Hanna
Sýn, móðurfélag fjarskiptafélagsins Vodafone á Íslandi, hefur gert samkomulag um samruna dótturfélags síns í Færeyjum og færeysks félags sem saman eiga að verða leiðandi í upplýsingatækni og fjarskiptum á eyjunum. Hagnaðurinn af viðskiptunum á að nema um 850 milljónum króna.

Í tilkynningu frá Sýn hf. kemur fram að félagið hafi selt meirihluta hlutafjár í Hey, dótturfélagi sínu í Færeyjum, til færeyska félagsins Tjalds. Í samkomulagi Sýnar og Tjalds er kveðið á um helstu skilmála í viðskiptum sem fela í sér samruna Heys og Nema, dótturfélags Tjaldurs.

Samruninn er sagður fela í sér kostnaðarhagræði og koma til með að leysa úr læðingi frekari verðmætasköpun með fjölbreyttar vöruframboði og sölumöguleikum, einkum á fyrirtækjamarkaði.

Skilmálarnir fela í sér að Sýn eignast 49,9% hlut í sameinuðu félagi en Tjaldur 50,1% hlut. Sýn fær greiðslu sem nemur 22 milljónum danskra króna auk hlutanna í viðskiptunum. Í kjölfar samrunas verður hlutur Sýnar í sameinaða félaginu líklega færður með hlutdeildaraðferð og verður því ekki hluti af reiknigsskilum samstæðu fyrirtækisins.

Viðskiptin eru sögð háð margvíslegum fyrirvörum, þar á meðal frágangi á endanlegum kaupsamningi og hlutahafasamningi auk samþykki færeyskra samkeppnisyfirvalda.

Vísir er í eigu Sýnar hf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×