Körfubolti

Úr næstbestu deildinni í Lúxemborg og inn í besta lið NBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfonzo McKinnie.
Alfonzo McKinnie. Vísir/Getty

Alfonzo McKinnie er ein af óvæntustu stjörnunum í NBA-deildinni í byrjun tímabilsins en hann hefur komið skemmtilega inn í lið NBA-meistara Golden State Warriors.

Það er ekki auðvelt að komast í þetta frábæra lið Golden State Warriors en Alfonzo McKinnie tókst það eftir að hafa unnið fyrir sínu sæti í æfingabúðum fyrir tímabilið.

Alfonzo McKinnie er svo sannarlega að upplifa körfuboltadrauminn því fyrir aðeins tæpum þremur árum síðan þá var þessi skemmtilegi leikmaður að spila með einu lélegasta liðinu í næstbestu deildinni í Lúxemborg.

Það eru ekki margir sem hafa komist svo hratt upp á toppinn á svo skömmum tíma en því náði Alfonzo McKinnie. New York Times fjallar um ævintýri þessa 26 ára gamla stráks sem fæddist í Chicago árið 1992.Vorið 2016 fylgdist Alfonzo McKinnie með Golden State Warriors spila í úrslitakeppnini en þá var hann á samningi hjá liði í Mexíkó þar sem hluti samningsins var 40 prósent afsláttur á sportbar.

„Ég horfði á alla leiki og át örugglega allt sem var á matseðlinum,“ sagði Alfonzo McKinnie í léttum tón í viðtalinu.

Alfonzo McKinnie sló fyrst fyrir alvöru í gegn með Golden State í sigri á Chicago Bulls eða í sama leik og Klay Thompson setti met í þriggja stiga körfum. McKinnie endaði með 19 stig og 10 fráköst í leiknum.

McKinnie er 203 sentímetra framherji sem er góður íþróttamaður og hörku skytta. Hann hefur þannig skorað yfir einn þrist í leik í vetur og nýtt 60 prósent skota sinna fyrir utan þriggja stiga línuna.

Alfonzo McKinnie er með 6,8 stig og 4,1 frákast á 14,7 mínútum í leik með Golden State Warriors í NBA í vetur. Tölur hans eru hinsvegar á uppleið því hann er með 11,0 stig og 6,0 fráköst að mðaltali í síðustu fimm leikjum.

Það verður fróðlegt að sjá hvort Alfonzo McKinnie fái áfram að spila þetta hlutverk hjá hinu frábæra liði Golden State Warriors.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.