Viðskipti innlent

Bestseller á Íslandi tapaði 105 milljónum

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Til samanburðar hagnaðist félagið um 316 milljónir króna árið 2016 en söluhagnaður rekstrarfjármuna upp á 489 milljónir króna litaði afkomuna það árið.
Til samanburðar hagnaðist félagið um 316 milljónir króna árið 2016 en söluhagnaður rekstrarfjármuna upp á 489 milljónir króna litaði afkomuna það árið. Vísir/Vilhelm
Bestseller á Íslandi, sem rekur meðal annars tískuvöruverslanirnar Vero Moda, Vila, Jack & Jones, Selected og Name It, tapaði liðlega 105 milljónum króna í fyrra samkvæmt ársreikningi félagsins, V.M. ehf.

Til samanburðar hagnaðist félagið um 316 milljónir króna árið 2016 en söluhagnaður rekstrarfjármuna upp á 489 milljónir króna litaði afkomuna það árið.

Bestseller á Íslandi seldi vörur fyrir samanlagt 1.379 milljónir króna á síðasta ári og dróst salan saman um 9,6 prósent frá fyrra ári. Álagning af vörusölunni nam tæpum 816 milljónum króna í fyrra en hún var um 893 milljónir króna árið 2016.

Rekstrartap félagsins nam 7 milljónum á síðasta ári borið saman við rekstrarhagnað upp á 152 milljónir árið 2016.

Félagið átti eignir upp á 1.295 milljónir króna í lok síðasta árs en þar af námu veltufjármunir 1.105 milljónum. Skuldirnar námu um 1.267 milljónum króna og þar af voru skammtímaskuldir 684 milljónir króna. 

Var eigið fé félagsins ríflega 28 milljónir króna í lok ársins og eiginfjárhlutfallið því um 2,2 prósent.

V.M. er í eigu fjárfestingafélagsins Vörðu Capital sem er að stærstum hluta í eigu Jónasar Hagan Guðmundssonar og Gríms Garðarssonar. Í ársreikningnum er tekið fram að fjárfestingafélagið sé tilbúið til þess að styðja við áframhaldandi rekstur V.M. með eiginfjárframlagi sem nauðsynlegt er til að tryggja rekstrarhæfi félagsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×