Golf

Fugl á lokaholunni hélt Woods í forystu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Tiger Woods brosmildur á hringnum í dag
Tiger Woods brosmildur á hringnum í dag vísir/getty
Tiger Woods er enn í forystu á Tour Championship, lokamóti FedEx úrslitakeppni PGA mótaraðarinnar, þegar mótið er hálfnað.

Woods var í forystu ásamt Rickie Fowler eftir fyrsta hringinn í gær. Hann leiðir mótið enn, en Englendingurinn Justin Rose er jafn Woods á sjö höggum undir pari. Fowler er dottinn niður í áttunda sæti.

Woods var á pari eftir fyrri níu holurnar með einn fugl og einn skolla. Hann fékk þrjá fugla á fjórum holum á seinni níu áður en hann fékk tvöfaldan skolla á 16. holu.









Hann náði sér í fugl á lokaholunni og lék því hringinn samtals á tveimur höggum undir pari og er á sjö höggum undir pari í mótinu.

Rose er efstur á FedEx stigalistanum eftir þennan annan dag, en efsti maður hans í lok þessa móts vinnur FedEx bikarinn og um tíu milljónir dollara í verðlaunafé, einn stærsta verðlaunapott íþróttaheimsins. Woods er í öðru sæti.

Rory McIlroy er næstur á eftir þeim Rose og Woods, tveim höggum fyrir aftan þá á fimm höggum undir pari. Billy Horschel, Jon Rahm, Justin Thomas og Patrick Cantlay eru allir jafnir á fjórum höggum undir pari.

Golfstöðin sýnir beint frá mótinu alla helgina og hefst útsending af þriðja hring klukkan 16:30 á morgun.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×