Viðskipti innlent

Bakkavör kaupir eftirréttaframleiðanda

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir keyptu 51% í Bakkavör í janúar 2016.
Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir keyptu 51% í Bakkavör í janúar 2016. Vísir
Bakkavör, sem er í meirihlutaeigu bræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssona, hefur fest kaup á bresku bakarísvörufyrirtækinu Haydens. Kaupverðið er sagt vera 12 milljónir punda, eða um 1,7 milljarðar íslenskra króna, en seljandinn var fyrirtækið Real Good Food.

Um 480 manns starfa hjá Haydens sem er meðal stærstu framleiðenda á bakarísvörum í Bretlandi. Tekjur félagsins námu rúmlega fjórum milljörðum króna á síðasta rekstrarári, sem lauk í lok mars. Rekstrarafkoma Haydens á síðasta ári er þó sögð hafa verið nokkuð nálægt núllinu.

Haft er eftir talsmanni Bakkavarar í umfjöllun FoodBev að kaupin muni styrkja stöðu fyrirtækisins á „breska eftirréttamarkaðnum.“ Vöruframboð félagsins muni aukast samhliða miklum samlegðaráhrifum en eins og frægt er sérhæfir Bakkavör sig í framleiðslu ýmissa matvæla.

Real Good Food er sagt hafa verið í fjárhagsvandræðum um nokkuð skeið og segja talsmenn fyrirtækisins að andvirði sölunnar verði notað til að grynnka skuldir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×