Viðskipti innlent

S4S keypti allt hlutafé í Ellingsen fyrir tæpar 250 milljónir króna

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Úr verslun Ellingsen úti á Granda.
Úr verslun Ellingsen úti á Granda. Vísir/Pjetur
Verslunarrisinn S4S keypti allt hlutafé í útivistarversluninni Ellingsen fyrir tæpar 246 milljónir króna, að því er fram kemur í nýbirtum ársreikningi félagsins fyrir síðasta ár. Kaupin á Ellingsen, sem rekur tvær verslanir, annars vegar á Akureyri og hins vegar í Reykjavík, gengu í gegn í maí í fyrra.

Ellingsen er rekið sem dótturfélag S4S en síðarnefnda félagið rekur meðal annars verslanir Steinars Waage, Kaupfélagið, Ecco og Skechers, auk netverslana. Seljandinn var Sjávarsýn, fjárfestingarfélag Bjarna Ármannssonar, en samhliða kaupunum fór eignarhlutur félagsins í S4S úr 26 prósentum í 40 prósent. Pétur Þór Halldórsson á jafnframt 40 prósenta hlut í verslunarrisanum en þeir Hermann Helgason framkvæmdastjóri og Georg Kristjánsson fara með tíu prósenta hlut hvor.

Í ársreikningi S4S kemur jafnframt fram að afkoma Ellingsen hafi verið jákvæð um 13,3 milljónir króna á síðasta ári. Var eigið fé útivistarverslunarinnar liðlega 82 milljónir króna.

S4S hagnaðist um ríflega 102 milljónir króna í fyrra en rekstrartekjur verslunarfélagsins voru um 3.197 milljónir króna á árinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×