Golf

Ólafía Þórunn úr leik

Anton Ingi Leifsson skrifar
Góð byrjun Ólafíu dugði ekki til.
Góð byrjun Ólafíu dugði ekki til. vísir/getty
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur, er úr leik á Opna skoska meistaramótinu í golfi sem fer fram í Aberdeen um helgina.

Ólafía Þórunn gerði sér erfitt fyrir í gær er hún spilaði á sex yfir pari. Valdís Þóra Jónsdóttir var einnig við keppni á Opna skoska en er líka úr leik.

Niðurskurðurinn í dag miðaðist við eitt högg yfir pari svo Ólafía þurfti að spila á fimm höggum undir pari ætlaði hún sér að komast í gegnum niðurskurðinn.

Hún byrjaði vel og fékk tvo fugla á fyrstu fimm holunum en fékk svo skolla á sjöundu holu. Hún fékk svo annan fugl á níundu holu og var á tveimur undir pari eftir fyrri níu.

Fugl á elleftu holunni opnaði allt fyrir Ólafíu sem þurfti því tvo fugla til viðbótar til að komast á fimm undir pari í dag.

Par á 12.-15. holu, skollar á sextándu og sautjándu og par á átjándu gerðu það að verkum að Ólafía verður ekki meðal keppanda um helgina.

Hún endaði samanlagt á 70 höggum á síðari hringnum í dag, einu undir pari en samanlagt fimm höggum yfir pari. Endaði hún því í 113. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×