Umfjöllun: Valur - Rosenborg 1-0 | Frábær sigur Vals á Hlíðarenda

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Valsmenn fögnuðu vel í kvöld
Valsmenn fögnuðu vel í kvöld vísir/bára

Valur vann í kvöld flottan 1-0 sigur gegn Rosenborg í fyrstu umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu. Með sigrinum komust Valsmenn í góða stöðu uppá það að komast áfram í keppninni. Hlíðarendapiltar halda til Noregs og spila útileikinn á Lerkendal í Þrándheimi næsta miðvikudag.

Leikurinn byrjaði rólega og var lítið um færi fyrstu tíu mínútur leiksins. Hvorugt liðið blés til sóknar og bæði lið varfærnisleg í sínum aðgerðum. Rosenborg fékk tvö horn á fyrstu tíu mínútunum en Valsmenn höfðu nokkra yfirburði í háloftunum í leiknum og gestirnir náðu ekki að skapa færi.

Á 17. mínútu komust Valsmenn í fyrsta sinn nálægt því að skora en Patrick Pedersen var nálægt því að ná boltanum stutt frá markinu eftir innkast frá Sigurði Agli Lárussyni, kantmanni Vals. Besta færi fyrri hálfleiks kom á 31. mínutu þegar Mike Jensen, fyrirliði Rosenborgar, átti skot af stuttu færi að marki Vals eftir stungusendingu frá Erik Botheim, Anton Ari Einarsson varði hins vegar vel.

Valsmenn reyndu mikið að láta sóknarleikinn fara í gegnum Patrick Pedersen sem fann sig ekki vel í hálfleiknum. Uppspilið hjá Völsurum virkaði oft klaufalegt. Rosenborg átti aðeins auðveldara með að komast inn í teiginn. Það er hins vegar léttara að segjast ætla að komast framhjá Birki, Eið og Bjarna í Valsvörninni en að gera það.

Seinni hálfleikur byrjaði einnig rólega en á 54. mínútu átti Sigurður Egill hættulega fyrirgjöf inn í teig Rosenborgar en bæði Tobias og Arnar Sveinn örlítið of seinir í boltann. Sóknarleikur Vals í upphafi seinni hálfleiks fór einmitt mikið í gegnum Sigurð Egil á vinstri kantinum. Þeir Ólafur Karl Finsen spiluðu vel sín á milli og náðu nokkrum sinnum að skapa hættu.

Valsmenn reyndu oft að spila boltanum hátt á Hauk Pál í föstum leikatriðum og á 62. mínutu skapaði það stórhættu. Kristinn Freyr Sigurðsson tók aukaspyrnu langt frá vítateig Rosenborgar þar sem hann fann Hauk Pál. Naglinn á miðjunni vann skallaeinvígið eins og hann gerir oftast, skallaði boltann niður fyrir Tobias Thomsen sem tók boltann á lofti af löngu væri. Boltinn small í stönginni. 

Skömmu síðar skapaðist stórhætta í teig Valsmanna. Hornspyrna rataði á kollinn á leikmanni þeirra norsku sem stýrði boltanum hárfínt framhjá marki Vals. Þar sluppu heimamenn með skrekkinn.

Seinasta hálftímann voru Valsmenn almennt betri en Norðmennirnir.  Á 69. mínútu þræddu þeir sig í gegnum vörn Rosenborgar á vinstri vængnum og komu boltanum á Arnar Svein Geirsson í teignum. Varnarmaður Rosenborgar var fljótur að koma sér fyrir skotið.

Á 80. mínutu átti Nicklas Bendtner sitt eina skot í leiknum en hann náði að taka á móti boltanum rétt fyrir utan teig Vals, skotið fór hins vegar framhjá markinu. Skömmu síðar fengu Valsmenn aukaspyrnu vinstra megin á miðjum vallarhelmingi Rosenborgar.

Guðjón Pétur Lýðsson tók spyrnuna, gaf á Tobias Thomsen sem var hægra megin við teiginn. Spyrna Tobiasar fyrir markið fann Eyjamanninn Eið Aron Sigurbjörnsson, sem spilað hafði frábærlega í hjarta varnarinnar hjá heimamönnum. Eiður Aron stýrði knettinum í netið og áhorfendur á Hlíðarenda ærðust.

Markið gaf Valsmönnum sjálfstraust og sigldu þeir sigrinum heim í hús, góðu veganesti fyrir síðari leikinn í Þrándheimi.

Haukur Páll Sigurðsson vísir/bára

Afhverju vann Valur?
Valsmenn náðu að koma boltanum í markið en ekki Rosenborg. Valsmenn náðu líka að rífa spilamennskuna upp í seinni hálfleik á meðan Rosenborg spiluðu verr þegar leið á leikinn.

Hverjar stóðu upp úr?
Eiður, Birkir og Bjarni voru allir frábærir í vörninni hjá Val og náðu að loka teignum gríðarlega vel. Eiður maður leiksins þar sem hann náði skoraði sigurmarkið en annars hefði verið erfitt að velja á milli þeirra.

Mike Jensen fyrirliði Rosenborg var eini leikmaður þeirra sem náði að skapa einhverja almennilega hættu fyrir Valsmenn og á hann hrós skilið fyrir það.

Patrick Pedersen átti erfitt með að koma boltanum í hættusvæði í fyrri hálfleik en náði nokkrum frábærum sprettum upp völlinn og snúningum frá varnarmönnum í seinni hálfleik þar sem hann sýndi þau miklu gæði hann sem hann býr yfir.

Hvað gekk illa?
Nicklas Bendtner vann líkast til ekki einn skallabolta á móti Eiði Aroni og átti hann almennt erfitt með að koma sér í færi, hann komst einu sinni einn á móti Antoni í fyrri hálfleik en Anton fór út í hann og Bendtner vissi ekkert hvað hann á að gera á móti Mosfellingnum.

Valsmenn áttu erfitt með að halda boltanum í fyrri hálfleik, voru að gefa í andstæðinga og náðu ekki að búa sér til mikið af sóknum.

Hvað gerist næst?
Valsmenn fara til Noregs í næstu viku og komast áfram í aðra umferð forkeppninnar með sigri eða jafntefli. Rosenborg náði hinsvegar ekki útivallarmarkinu mikilvæga og eru komnir með bakið upp við vegg. Sigurvegari þessa einvígis fær líklega Celtic í annarri umferð í undankeppni meistaradeildarinnar, en Celtic vann í gær sannfærandi 3-0 sigur á útivelli gegn Alashkert frá Armeníu.

Bára Dröfn, ljósmyndari Vísis, var á Hlíðarenda í kvöld og tók myndirnar með fréttinni.

vísir/bára

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.