Viðskipti innlent

Olíusjóðurinn keypti fyrir um 500 milljónir

Hörður Ægisson skrifar
Norski olíusjóðurinn er stærsti fjárfestingarsjóður í ríkiseigu í heiminum. Sjóðurinn á eignir að virði um 1.100 milljarða dala.
Norski olíusjóðurinn er stærsti fjárfestingarsjóður í ríkiseigu í heiminum. Sjóðurinn á eignir að virði um 1.100 milljarða dala. Vísir/Getty
Norski olíusjóðurinn, sem er stærsti fjárfestingarsjóður í ríkiseigu í heiminum, keypti í Arion banka fyrir um 500 milljónir króna í nýafstöðnu hlutafjárútboði bankans. Nemur eignarhlutur sjóðsins, samkvæmt heimildum Markaðarins, í kringum 0,3 prósentum sem er litlu minni hlutur en stærstu lífeyrissjóðir landsins fengu úthlutað í útboði bankans.

Olíusjóðurinn, sem á samtals eignir að virði um 1.100 milljarða Bandaríkjadala, hefur vaxið gríðarlega frá stofnun hans árið 1990 og á sjóðurinn í dag að meðaltali um 2,4 prósenta hlut í hverju einasta skráða fyrirtæki í Evrópu. Ekki er vitað til þess að sjóðurinn eigi eignarhlut í öðrum skráðum félögum í Kauphöllinni á Íslandi en Arion banka.

Við lokun markaða í gær nam hlutabréfaverð Arion banka 86 krónum á hlut og var um fimmtán prósentum hærra en í útboði bankans þegar Kaupþing og vogunarsjóðurinn Attestor seldu um 29 prósenta hlut á genginu 75 fyrir samtals um 39 milljarða. Kaupendur að bréfunum voru að stærstum hluta erlendir fjárfestingarsjóðir á meðan íslenskir fjárfestar – almenningur, fagfjárfestar og lífeyrissjóðir – fengu aðeins að kaupa samanlagt um 9 prósenta hlut.

Nöfn þeirra erlendu sjóða sem fjárfestu í Arion banka hafa enn ekki birst á hluthafalista bankans – fyrir utan sjóði í stýringu Landsdowne, Miton og Eaton Vance sem eiga samanlagt nærri sex prósenta hlut – en eignarhlutur þeirra er í dag skráður í vörslu bandarískra fjárfestingarbanka. Að sögn þeirra sem þekkja vel til nam fjöldi nýrra erlendra fjárfestingarsjóða sem bættust við hluthafahóp bankans í kjölfar útboðsins nærri tuttugu talsins, en þar er einkum um að ræða bandaríska sjóði.

Í flestum tilfellum keyptu sjóðirnir hvor um sig á bilinu um 0,5 til 1 prósents eignarhlut í bankanum en í þeim hópi var meðal annars sjóður í rekstri sænska eignastýringarfyrirtækisins Lannebo Fonder, samkvæmt heimildum Markaðarins. 



Höfuðstöðvar Arion við Borgartún.Vísir/Pjetur
Sjóður í stýringu félagsins er einnig í hópi stærstu hluthafa íslenska stoðtækjafyrirtækisins Össurar, sem er skráð í dönsku kauphöllina, með um 2,4 prósenta hlut. Miðað við núverandi hlutabréfaverð Arion banka er markaðsvirði eins prósents hlutar í bankanum um 1.700 milljónir króna.

Fjárfestingarfélagið Stoðir, sem er í meirihlutaeigu meðal annars Jóns Sigurðssonar, Einars Arnar Ólafssonar og Magnúsar Ármann í gegnum eignarhaldsfélagið S121, er stærsti íslenski einkafjárfestirinn í hluthafahópi Arion banka með 0,6 prósenta hlut, eins og upplýst var í Markaðnum í síðustu viku. Samkvæmt lista yfir alla hluthafa miðvikudaginn 20. júní átti félagið samtals 12 milljónir hluta, sem eru metnir á rúmlega milljarð króna miðað við núverandi gengi bréfa bankans.

Þá átti félagið Vogun hf., sem seldi fyrir skemmstu þriðjungshlut sinn í HB Granda, samtals 0,4 prósent af heildarútgefnum bréfum bankans. Markaðsvirði hlutar Vogunar, en stærsti hluthafi þess félags er Kristján Loftsson og fjölskylda í gegnum Fiskveiðihlutafélagið Venus, er í dag um 690 milljónir króna. Eignarhlutur annarra einkafjárfesta í Arion banka er hverfandi.

Samkvæmt hluthafalista Arion banka eiga átta af stærstu lífeyrissjóðum landsins samtals um 3,1 prósents hlut í bankanum. Þar munar mest um 0,65 prósenta hlut Gildis, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins á 0,53 prósent, Frjálsi og Stapi eiga hvor um sig 0,4 prósenta hlut, Lífeyrissjóður verslunarmanna fer með 0,38 prósent og Almenni á 0,35 prósent. Eignarhlutur annarra sjóða – Birtu og Lífsverks – er talsvert minni.


Tengdar fréttir

Stoðir keyptu í Arion banka fyrir um milljarð

Stoðir eru stærstu íslensku einkafjárfestarnir með 0,6 prósent. Skráðu sig fyrir um 100 milljónum hluta en fengu 12 milljónir. Félagið Vogun, sem Kristján Loftsson og fjölskylda stýra, keypti í Arion banka fyrir um 600 milljónir króna.

Næststærsta skráning í sögu Kauphallar Íslands

Hlutabréf Arion banka voru tekin til viðskipta samtímis í kauphöllunum á Reykjavík og Stokkhólmi í morgun. Skráning Arion banka er næststærsta skráning í sögu Kauphallar Íslands og fyrsta samhliða tvískráning á mörkuðum Nasdaq á Norðurlöndunum í meira en áratug.

Meta Arion allt að 56 prósent yfir útboðsgengi

Greinendur meta gengi hlutabréfa í Arion banka allt að 56 prósent hærra en útboðsgengi bréfanna. Sérfræðingar IFS telja líklegt að vaxtamunur muni lækka vegna aukinnar samkeppni. Capacent segir vaxtarmöguleika íslenskra banka takmarkaða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×