Körfubolti

Hannes: Menn eiga að virða þá samninga sem þeir gera

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sigtryggur Arnar Björnsson skrifaði í kvöld undir samning við Grindavík í Domino's deild karla þrátt fyrir að hafa skrifað undir framlengingu á samningi sínum hjá Tindastól í apríl.

Forráðamenn Tindastóls töldu samninginn gildann og að leikmaðurinn væri samningsbundinn þeim. Samningnum var hins vegar ekki skilað inn á skrifstofu KKÍ á réttum tíma og því taldi Sigtryggur sig lausan allra mála.

Félögin leystu í dag ágreining sinn og skrifuðu forráðamenn Tindastóls upp á samninginn svo Sigrtyggur Arnar gat klárað skipti sín til Grindavíkur.

Samkvæmt reglum KKÍ þurfa félög að skila samningum á skrifstofu sambandsins innan 30 daga frá undirritun. Sigtryggur Arnar skrifaði undir framlengingu við Tindastól í apríl. Þeim samning var ekki skilað inn innan 30 daga frá undirritun, en innan 30 daga frá því að gamli samningurinn rann út.

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, sagði aðeins helming félaga í úrvalsdeildinni skila inn samningum til sambandsins. Hann vill þó að leikmenn virði þá samninga sem þeir gera.

„Við höfum dómafordæmi frá því fyrir tveimur árum síðan þar sem féll úrskurður um það að þar sem samningurinn var ekki inni innan þessa 30 daga svo skrifstofa KKÍ varð að gefa leikheimild hjá nýja félaginu,“ sagði Hannes við Kjartan Atla Kjartansson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„En hvert mál hefur sitt eigið fordæmi. Númer eitt, tvö og þrjú þá eiga menn að virða þá samninga sem þeir gera, hvort sem það eru leikmenn eða félög.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×