Golf

Ólafía höggi frá því að komast áfram

Ísak Jasonarson skrifar
Ólafía á mótinu vestanhafs.
Ólafía á mótinu vestanhafs. vísir/getty

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék í dag annan hringinn á KPMG PGA meistaramótinu, þriðja risamóti ársins, sem fer fram í Illinois fylki í Bandaríkjunum. Ólafía komst ekki í gegnum niðurskurðinn eftir slæman endasprett.

Ólafía hóf leik á 10. teig á hring dagsins og byrjaði ekki nógu vel en hún var komin tvö högg yfir par eftir fjórar holur. Hún svaraði því hins vegar frábærlega með fuglum á 14. og 15. holu og var á parinu eftir fyrri níu holurnar.

Á seinni níu fór svo að halla undan fæti hjá Ólafíu sem fékk skolla á 2., 4. og 6. holu og var þá komin á 4 yfir í heildina. Á þeim tímapunkti var í fyrsta skiptið útlit fyrir að hún væri úr leik í mótinu. Skolli á 8. holu gerði svo endanlega út um vonir hennar þar sem hún var þá komin á 5 högg yfir par. Fugl á 9. holu dugði ekki til að komast áfram en hún endaði að lokum höggi frá niðurskurðarlínunni.

Ólafía Þórunn var að leika í annað skiptið í þessu risamóti en hún lék einnig í því í fyrra. Þá komst hún ekki heldur í gegnum niðurskurðinn.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.