Viðskipti innlent

Fólk á faraldsfæti hjá Arion banka

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Höskuldur H. Ólafsson er bankastjóri Arion banka.
Höskuldur H. Ólafsson er bankastjóri Arion banka. Arion banki
Lýður Þór Þorgeirsson, framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs Arion banka, mun einnig stýra fyrirtækjasviði bankans á næstunni. Viðskiptablaðið greinir frá en ástæðan er sú að Freyr Þórðarson, sem stýrði sviðinu, hefur verið ráðinn til norska bankans DNB í New York.

Breytingin kemur í kjölfar fleiri breytinga sem vakið hafa athygli undanfarin misseri en Pétri Richter, sérfræðingi í fyrirrækjaráðgjöf Arion banka, hefur sömuleiðis verið sagt upp störfum.

Jakob Már Ásmundsson tilkynnti í vikunni um afsögn sína úr stjórn Arion banka vegna „óæskilegrar hegðunar af hans hálfu“ í gleðskap hjá starfsmönnum og helstu viðskiptavinum bankans í síðustu viku.

„Þar sagði ég hluti sem eru mér ekki samboðnir og kvartað var yfir. Ég sé mikið eftir þessu og vil axla ábyrgð með því að segja mig úr stjórninni,“ sagði Jakob í tilkynningu.

Um áramótin hætti Guðrún Johnsen óvænt í stjórn bankans eftir sjö ára setu. Kjarninn sagði Guðrúnu hafa verið látna hætta en engar frekari skýringar voru gefnar á brotthvarfi hennar.

Arion banki hefur verið mikið í sviðsljósinu undanfarin misseri þar sem hann hefur verið í söluferli. Þá fór bankinn illa út úr lánaviðskiptum sínum við United Silicon og tók við öllum eignunum í febrúar samkvæmt samkomulagi við skiptastjóra í búinu. Forsvarsmenn bankans segja markvissum blekkingum hafa verið beitt af fyrrverandi forstjóra United Silicon. Málið er til rannsóknar hjá héraðssaksóknara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×