Formúla 1

Upphitun: Þröngar götur og glamúr í vinsælustu keppni ársins

Bragi Þórðarson skrifar
Hamilton á æfingu í Mónakó
Hamilton á æfingu í Mónakó vísir/getty
Vinsælasti akstursíþróttaviðburður heims ár hvert fer fram á sunnudag þegar að sjötta umferðin í Formúlu 1 fer fram í Mónakó. Eftirvæntingin er mikil og ekki skemmir fyrir að slagurinn um heimsmeistaratitilinn hefur verið gríðarlegur það sem af er ári.

Bretinn Lewis Hamilton á Mercedes hefur yfirhöndina gegn Þjóðverjanum Sebastian Vettel á Ferrari eins og er. Lewis hefur 17 stiga forskot á Vettel fyrir kappaksturinn en 25 stig fást fyrir fyrsta sætið. Báðir þessir ökumenn eru að eltast við sinn fimmta heimsmeistaratitli í ár, og báðir hafa sigrað tvisvar í Mónakó á ferlinum.

Keppt hefur verið á götum Mónakó síðan árið 1929. Brautin er mjög þröng sem gerir framúrakstur mjög erfiðan, sérstaklega á þessum breiðu bílum sem keppt er á í dag. Því geta tímatökurnar á laugardaginn skorið úr um kappaksturinn. Glamúrinn og fegurðin í Mónakó á sér enga hliðstæðu og því ekki að ástæðulausu að margir ökuþóranna kjósa að búa í borginni. Það má því með sanni seigja að Formúlan er á vissan hátt að koma heim þegar að bílarnir verða ræstir af stað klukkan 13:10 á sunnudaginn.





Brautin í Mónakó er í stórglæsilegu umhverfivísir/getty
Lewis Hamilton og Mercedes hafa unnið síðustu tvær keppnir og lítur út fyrir að uppfærslurnar sem liðið kom með í spænska kappaksturinn hafi skilað sér. Toto Wolff, stjóri liðsins, sagði þó í vikunni að Mercedes-bíllinn verði ekki sá hraðasti á götum Mónakó og það kom á daginn á fyrstu æfingum helgarinnar.

Þar var það Red Bull sem átti lang hraðasta bílinn, en liðið hefur oft gert það gott á götum Mónakó. Lágur meðalhraði brautarinnar hentar Red Bull bílunum vel en bæði Ferrari og Mercedes voru í vandræðum á æfingum.

Bæði Ferrari og Red Bull þurfa á góðum úrslitum að halda ef liðin ætla ekki að missa Mercedes allt of langt frá sér í baráttunni um titil bílasmiða. Því má búast við mikilli baráttu í þessum heimsfræga kappakstri sem verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport um helgina. Útsending frá tímatökunni hefst klukkan 12:50 á morgun, laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×