Magnús Stefánsson, einn besti varnarmaður ÍBV, er kominn í að minnsta kosti eins leiks bann fyrir rauða spjaldið sem hann fékk í leik Eyjamanna gegn Haukum í undanúrslitum úrslitakeppni Olísdeildar karla á þriðjudaginn.
Magnús braut á Daníel Þór Ingasyni í leiknum og er óvíst með hans þátttöku í næstu leikjum. Óttast er að Daníel hafi farið úr kjálkalið en að hafa hrokkið strax aftur í lið. Brotið má sjá hér fyrir ofan.
Aganefnd HSÍ tók mál hans fyrir í gær og var Magnús dæmdur í eins leiks bann hið minnsta. Málinu er ekki lokið þar sem afgreiðslu þess var frestað um sólarhring. Óskað var eftir greinargerð ÍBV vegna þessa og verður málið aftur tekið fyrir á fundi aganefndar á morgun, þar sem möguleiki er á því að Magnús verði dæmdur í enn lengra leikbann.
ÍBV vann leikinn þrátt fyrir að hafa misst Magnús af velli með rautt spjald en liðin mætast í næsta leik á fimmtudagskvöldið í næstu viku.
Magnús í eins leiks bann og gæti fengið þyngri refsingu enn
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar