Körfubolti

Tapaði fyrir Blikum í lokaúrslitunum en tók síðan bara við þeim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pétur Ingvarsson
Pétur Ingvarsson Vísir/Anton
Péturs Ingvarsson verður næsti þjálfari Breiðabliks en Blikar unnu sér sæti í Domino´s deildinni á dögunum.

Pétur þjálfaði Hamar í 1. deild karla í vetur og mætti einmitt Blikum í úrslitaeinvígi um laust sæti í Domino´s deildinni.

Þar höfðu Blikar betur 3-1 og komust upp. Pétur hætti með Hamarsliðið eftir seríuna og í dag var tilkynnt að hann myndi taka við Blikaliðinu.

„Pétur tekur við öflugu búi og mun áfram stuðla að þeirri uppbyggingu sem félagið hefur staðið fyrir síðustu ár. Breiðablik fagnar því að fá jafn reyndar þjálfara og Pétur til liðs við félagið og við bjóðum hann velkomin til starfa,“ segir í frétt á heimasíðu Blika.

Breiðablik lét Lárus Jónsson fara fyrr í vetur og Chris Woods var spilandi þjálfari liðsins út leiktíðina. Woods kom Blikum upp en hann skoraði sjálfur 21,0 stig og tók 12,1 frákast að meðaltali í úrslitakeppninni.

Péturs Ingvarsson hefur mikla reynslu af þjálfun í úrvalsdeild karla en hann hefur stýrt Hamar eða Hamar/Selfoss í 181 leik í efstu deild, Haukum í 27 leikjum og Skallagrími í 11 leikjum. Pétur var síðast þjálfari í Domino´s deildinni þegar hann var með lið Skallagrím veturinn 2014-15.

Pétur fylgir þar með í fótspor bróðurs síns Jóns Arnars Ingvarssonar sem þjálfaði Blika í úrvalsdeildinni frá 2002 til 2004.

Blikar eru núna komnir upp í úrvalsdeildina í fyrsta sinn í átta ár eða síðan 2009-10 tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×