Körfubolti

Körfuboltakvöld: „Úrslitakeppni kvenna verður ekki minni veisla en úrslitakeppni karla“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Keflavík og Valur mætast í kvöld í fyrsta leik sínum í undanúrslitum Domino´s deildar kvenna í körfubolta.

Keflavíkurliðið tók annað sætið af Valskonum á lokasprettinum og verður því með heimavallarréttinn í þessu einvígi.

Keflavíkurkonur eru ríkjandi Íslandsmeistarar og unnu bikarinn annað árið í röð á dögunum. Valsliðið hefur aldrei komist í lokaúrslitin um Íslandsmeistaratitilinn.

Körfuboltakvöld fór vel yfir þetta einvígi á milli Keflavíkur og Vals en þar sögðu þau Ágúst Björgvinsson og Pálína Gunnlaugsdóttir sína skoðun á því hvernig þetta einvígi muni koma til að spilast.

„Fyrirfram á þetta að vera mjög spennandi einvígi. Liðin eru búin að mætast fjórum sinnum á tímabilinu og þar er 2-2. Við sjáum vonandi kannski oddaleik í þessu einvígi,“ sagði Stefán Árni Pálsson, umsjónarmaður Körfuboltakvölds, þegar hann hóf umræðuna um einvígi Keflavíkur og Vals.

„Liðin hafa skipst á að vinna í vetur og hafa bæði unnið á heimavelli hins liðsins. Valur vann síðasta leik þeirra mjög stórt en sá leikur gaf Keflavíkurliðunu spark í afturendann og þær eru að spila miklu betur eftir að þær töpuðu þeim leik,“ sagði Ágúst Björgvinsson.

Keflavíkurkonur hafa unnið fimm leiki í röð eftir þetta tap á Hlíðarenda þar af unnu þær deildarmeistara Hauka með tuttugu stigum.

„Þær eru á mikilli siglingu og þær eru með Sverri til að leiða liðið áfram. Þær geta ekki annað en komið undirbúnar í þetta einvígi á móti Val. Valsstúkur og Darri hafa samt komið mér svolítið á óvart í ár. Þær eru með ungan og óreyndan þjálfara sem hafði ekki þjálfað í úrvalsdeild áður,“ sagði Pálína Gunnlaugsdóttir um einvígið en bætti svo við.

„Þetta eru öll gríðarlega sterk lið sem eru að fara að mætast í þessari úrslitakeppni og ég held að úrslitakeppni kvenna verði ekki minni veisla en úrslitakeppni karla,“ sagði Pálína.

Það má finna all umfjöllun Körfuboltakvölds um einvígi Keflavíkur og Vals í spilaranum hér fyrir ofan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.