Viðskipti innlent

Gamlir skreiðarhjallar öðlast nýtt líf með stórþorskinum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Starfsmenn FISK, þeir Árni Grétarsson og Hrólfur Þeyr Þorrason, staðgengill verkstjóra.
Starfsmenn FISK, þeir Árni Grétarsson og Hrólfur Þeyr Þorrason, staðgengill verkstjóra. Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Gamlir skreiðarhjallar, sem staðið höfðu ónotaðir árum saman á Sauðárkróki, hafa öðlast líf að nýju, þökk sé óvenju stórum þorski. Svo stórir eru þorskhausarnir að þurrkverksmiðjan ræður ekki við þá og því þarf að hengja þá upp með gamla laginu. Frá þessu var sagt í fréttum Stöðvar 2. 

Eldri kynslóðir muna þann tíma þegar skreiðarhjallar settu svip sinn á sjávarbyggðir hringinn í kringum landið. En svo hurfu þeir flestir. Menn eru þó ekki alveg hættir að nýta hjallana. Á Sauðárkróki hafa menn verið að hengja upp þorskhausa undanfarnar vikur.

Þorskhausarnir hengdir upp á Sauðárkróki.Stöð 2/Arnar Halldórsson
Þar hittum við nokkra starfsmenn FISK Seafood en þeir segjast hafa byrjað að hengja upp í byrjun marsmánaðar. Við drögum tvo þeirra í viðtal, þá Árna Grétarsson og Hrólf Þey Þorrason. Árni segist hafa hengt upp í gamla daga en Hrólfur segist vera að gera þetta í fyrsta sinn. 

Tilgangurinn er að þurrka hausana og það tekur sinn tíma utanhúss; þrjá og hálfan mánuð, segir Árni. Hausarnir verða seldir til Nígeríu. En er einhver sala í þessu? 

„Já, brjáluð sala alveg. Það er svo mikið prótein í þessu,“ svarar Árni. 

Þorskhausarnir verða tilbúnir fyrir Nígeríumarkað eftir þrjá og hálfan mánuð.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
En núna er komin ný tækni og nýjar og fljótlegri aðferðir, eins og með fiskþurrkunarhúsinu við hliðina, sem tekið var í notkun fyrir fjórum árum. Með inniþurrkun hefur orðið mikil þróun og tæknibylting, segir Hrólfur. 

Tæknin hefur þó ekki alveg náð að útrýma gömlu aðferðinni. Á Króknum segjast þeir síðast hafa hengt upp utanhúss fyrir þremur árum. 

„Þetta eru sem sagt hausar sem við getum ekki þurrkað inni. Þeir eru of stórir. Þeim var hent áður en núna hengjum við þá út til að nýta þá,“ segir Hrólfur. 

Karlarnir geta því þakkað það stórum þorski að fá tilbreytingu með útivinnu. En er þetta gaman að standa í þessu? 

„Jú, jú. Skemmtilegt að fara út,“ svarar Árni. 

„Svona eftir veðri kannski,“ bætir Hrólfur við. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:






Fleiri fréttir

Sjá meira


×