Viðskipti innlent

Fallið frá málaferlum gegn LBI

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Kevin Stanford athafnamaður
Kevin Stanford athafnamaður
Gert er ráð fyrir að 2,6 milljarðar króna verði greiddir til eignarhaldsfélagsins LBI í næsta mánuði eftir að fallið var frá málaferlum í deilu félagsins og breska kaupsýslumannsins Kevins Stanford fyrr í mánuðinum.

Stanford hafði krafið félagið, sem heldur utan um eignir gamla Landsbankans, um 11,6 milljarða króna gagnkröfur sem hann vildi að gengi upp í skuld hans við LBI. Kom málið til kasta íslenskra dómstóla, en greint var frá því í ársreikningi LBI, sem var birtur í síðustu viku, að fallið hefði verið frá málaferlunum.

LBI hefur á síðustu árum staðið í málaferlum vegna innheimtu á tveimur fasteignalánum sem Stanford fékk hjá Landsbankanum í Lúxemborg árið 2007. Lánin voru með veði í fasteign í Kensington-hverfinu í miðborg Lundúna annars vegar og skíðaskála á Chourchevel-skíðasvæðinu í frönsku Ölpunum hins vegar.

Söluandvirði eignanna var lagt inn á vörslureikning í Bretlandi á meðan beðið var niðurstöðu íslenskra dómstóla og gera stjórnendur LBI nú ráð fyrir að 21,4 milljónir evra, jafnvirði um 2,6 milljarða króna, verði greiddar af reikningnum til LBI.




Tengdar fréttir

Tískukóngurinn Kevin Stanford klórar í bakkann

Fyrir aðeins tveimur árum horfði tískukóngurinn Kevin Stanford fram á eitt stærsta persónulega gjaldþrot sögunnar í Bretlandi. Þessum fyrrum viðskiptafélaga Baugs og einum af stærstu skuldurum Kaupþings hefur hinsvegar tekist að klóra svo vel í bakkann að hann heldur enn hluta af fyrra veldi sínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×