Viðskipti innlent

Starfsemi Framtakssjóðsins að ljúka

Birgir Olgeirsson skrifar
Ásgeir Jónsson, Þorkell Sigurlaugsson og Herdís Fjeldsted
Ásgeir Jónsson, Þorkell Sigurlaugsson og Herdís Fjeldsted Birgir Ísleifur Gunnarsson
Forsvarsmenn Framtakssjóðs Íslands tilkynntu á blaðamannafundi í dag að formlegri starfsemi sjóðsins sé að ljúka. Framtakssjóður Íslands slhf. (FSÍ) var stofnaður í desember 2009 af 16 lífeyrissjóðum. Síðar bættust Landsbankinn og VÍS í hóp hluthafa. Tilgangur sjóðsins var ásamt því að ávaxta innborgað hlutafé að fjárfesta í íslensku atvinnulífi og taka þannig þátt í enduruppbyggingu þess í kjölfar efnahagshrunsins og hruns íslensku bankanna. Áætluð heildarverðmæti FSÍ frá stofnun eru 90,9 milljarðar króna.

Á aðalfundi félagsins sem haldinn verður á morgun, 14. mars, verður lagt til að greiddir verði út 11,7 milljarðar króna. Hefur sjóðurinn þá frá stofnun hans greitt eigendum sínum til baka 86,2 milljarða króna. Áætlað gangvirði eftirstandandi eigna er um 4,6 milljarðar króna. Á fundinum kynnti dr. Ásgeir Jónsson, hagfræðingur og dósent við Háskóla Íslands, rit sem hann hefur unnið um starfsemi sjóðsins og ber heitið Framtak við endurreisn. Ritið inniheldur mat höfundar á starfsemi sjóðsins og þeim lærdómi sem hann telur að unnt sé að draga af starfsemi hans til lengri tíma litið.

Framtakssjóðurinn fjárfesti í öllum atvinnugreinum landsmanna og endurreisti fyrirtæki sem voru í fjárhags- og eða rekstrarvanda. Á starfstíma sínum fjárfesti FSÍ í níu fyrirtækjum fyrir um 43 milljarða króna. Af þeim eru nú þrjú skráð í Kauphöllinni; Icelandair, Vodafone og N1. Önnur félög eru nú hluti af rekstri stærri samstæðu; Advania, Húsasmiðjan, Invent Farma, Plastprent og Promens. Eitt félag, Icelandic Group var selt í hlutum. Alls fjárfesti sjóðurinn fyrir 43,3 milljarða og hagnaðist um 47,7 milljarða króna. Vænt árleg innri ávöxtun sjóðsins er 22,6%. 

„Þessi vegferð Framtakssjóðsins hefur verið mjög árangursrík. Með fjárfestingum sjóðsins í íslensku atvinnulífi hefur átt sér stað mikil verðmætasköpun, bæði efnahagsleg og samfélagsleg. Lok starfsemi sjóðsins marka því viss tímamót og kaflaskil í uppgjöri þjóðarinnar við bankahrunið. Í upphafi voru sjóðnum sett viss tímamörk til að sinna hlutverki sínu við uppbyggingu atvinnulífsins og því hlutverki er nú lokið,“ er haft eftir Þorkatli Sigurlaugssyni, stjórnarformanni FSÍ, í tilkynningu um málið.

„Framtakssjóðurinn var stofnaður á afar krefjandi tímum í íslensku efnahagslífi. Á þessum tíma var gríðarlega mikilvægt að koma á hreyfingu fjármagns í atvinnulífinu, losa sem fyrst um eignir sem lágu í bönkunum og síðast en ekki síst að byggja upp öflugri félög á grunni þeirra félaga sem höfðu farið mjög illa með bankahruninu. Það lá frá upphafi ljóst fyrir að fjárfestingagetan lá fyrst í stað aðallega hjá lífeyrissjóðunum. Þátttaka þeirra í stofnun FSÍ gerði kleift að ráðast í endurreisn þjóðhagslega mikilvægra fyrirtækja og vinna í endurskipulagningu og stefnumótun íslensks atvinnulífs til framtíðar þjóðinni til heilla,“ er haft eftir Herdísi Fjeldsted, framkvæmdastjóra FSÍ.

„Mikil andstaða var við stofnun ríkisrekins eignarhaldsfélags sem hugmyndir voru um á sínum tíma, sem hefði ekki verið góður kostur. Því var stofnun Framtakssjóðsins augljós leið til þess að endurreisa íslenskt efnahagslíf eftir áfallið 2008 sem eins konar rökrétt framhald af hinni innlendu/erlendu skiptingu bankanna,“ er haft eftir dr. Ásgeiri Jónssyni hagfræðingi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×