Kári Jónsson verður ekki með íslenska landsliðinu í leikjunum á móti Tékklandi og Finnlandi og hann missir líka af síðustu þremur umferðunum í Domino´s deildinni.
Landsliðshléið hefur mikil áhrif á Haukaliðið þar sem liðið missir nú algjöran lykilmann fyrir lokabaráttuna um deildarmeistaratitilinn. Kári Jónsson fingurbrotnaði á landsliðsæfingu. Brotið er í þumalfingrinum á hægri hendi.
„Það er ennþá verið að skoða þetta aðeins betur en ég gæti verið frá keppni í um fjórar vikur. Það þýðir að ég missi af þremur síðustu leikjunum í deildinni en stefnan er að reyna að ná fyrsta leiknum í úrslitakeppninni,“ sagði Kári við mbl.is.
Haukar eru með tveggja stiga forskot þegar þrjár umferðir eru eftir af deildinni en liðið á eftir að mæta Stjörnunni (7. sæti), ÍR (2. sæti) og Val (10. sæti).
Kári Jónsson er með 19,8 stig og 5,1 stoðsendingu að meðaltali í leik en hann í 8. sæti í stigaskori, 5. sæti í stoðsendingum og í 10. sæti framlagi. Haukar hafa unnið 14 af 17 leikjum síðan að hann kom frá Bandaríkjunum.
Meiðsli Kára rifja upp slæmar minningar fyrir Hauka en Kári meiddist í tvígang í úrslitakeppninni 2016 þegar Haukar voru með frábært lið og fóru alla leið í lokaúrslitin á móti KR.
Kári missir ekki bara af landsleikjunum heldur næstu leikjum Hauka líka
