Viðskipti innlent

Árni tekur við sem framkvæmdastjóri Loftleiða

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Árni Hermannsson er næsti framkvæmdastjóri Loftleiða.
Árni Hermannsson er næsti framkvæmdastjóri Loftleiða. mynd/loftleiðir
Árni Hermannsson mun taka við sem framkvæmdastjóri Loftleiða í næstu viku. Guðni Hreinsson, núverandi framkvæmdastjóri, hefur sagt starfi sínu lausu hjá Loftleiðum eftir fjórtán ára starf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Guðni hefur starfað hjá Loftleiðum frá 2003 og sem framkvæmdastjóri félagsins frá 2006 og leitt uppbyggingu félagsins undanfarin ár. Hann mun áfram starfa við flugtengda starfsemi því hann hyggst taka að sér miðlun og ráðgjöf við flugfélög og leigusala á alþjóðlegum mörkuðum. Guðni mun verða Loftleiðum innan handar næstu mánuði.

Árni Hermannsson hefur verið fjármálastjóri Loftleiða frá 2002. Hann starfaði sem markaðstjóri Álits frá árinu 1999. Árið 2000 var hann ráðinn fjármálastjóri Álits og ári síðar fjármálastjóri ANZA sem varð til við sameiningu Álits, Miðheima, Nett og Veftorgs. Hann hefur setið í fjölmörgum stjórnum fyrirtækja fyrir hönd Icelandair Group á undanförnum árum. Árni útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1999. Á árunum 1992-1995 lagði hann stund á hagverkfræði í Technische Hochshule í Darmstadt í Þýskalandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×