Kerecis, sem er á Ísafirði, var stofnað árið 2007 og hefur fyrirtækið unnið að rannsóknum sem miða að gerð stoðefna til að hámarka vöxt frumna. Fyrirtækið hefur framleitt og selt svokallað sáraroð, sem unnið er úr þorskroði sem fellur til við fiskvinnslu á Vestfjörðum, sem notað er til meðhöndlunar á þrálátum sárum. Roðið er lagt ofan í skemmdan vef og vaxa þá frumur líkamans inn í roðið. Vörur Kerecis hafa meðal annars verið notaðar af Bandaríkjaher til að meðhöndla skot- og brunasár.
Helsti keppinautur Kerecis er sáravaran EpiFix. Sú er unnin úr fósturbelgjum nýbura. Í rannsókninni nú voru tvö fullþykktarsár, það er sár sem ná í gegnum bæði lög húðarinnar, gerð á 85 sjálfboðaliða. Annað sárið var meðhöndlað með sáraroði Kerecis en hitt með EpiFix. Fylgst var með reglulegum hætti með því hvernig sárin tvö greru á hverjum og einum og gaf sáraroðið mun betri raun. Tveimur vikum eftir að sárin voru gerð höfðu 68 prósent fleiri sáraroðssár gróið samanborið við EpiFix sárin. Fjórum dögum síðar voru þau 83 prósent fleiri. Við rannsóknarlok voru tvöfalt fleiri fósturbelgssár ógróin samanborið við þau sem meðhöndluð voru með sáraroði.

Vöxtur Kerecis undanfarin ár hefur verið gífurlegur. Í fyrra fjórfölduðust sölutekjur fyrirtækisins og að sögn Guðmundar stefnir allt í það að sagan endurtaki sig í ár. Áætlanir gera ráð fyrir því að sölutekjurnar verði nálægt milljarði króna á þessu ári.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar um helgina á ársþingi bandarískra fótlækna, það er lækna sem sérhæfa sig í sárum á fótleggjum. Guðmundur segir að viðbrögðin frá læknunum hafi verið jákvæð og rannsóknin vakið mikla athygli.
„Vörur okkar eru mest notaðar í að meðhöndla sykursýkissár. Þegar þau hafa orðið stór hefur eina leiðin oft verið að aflima sjúklinginn. Það er mikill vöxtur í fjölgun sykursýkissjúklinga og við trúum að vörur okkar geti bætt lífsgæði þeirra og komið í veg fyrir að grípa þurfi til aflimana,“ segir Guðmundur.