Þetta er á meðal þess sem fram kemur í minnisblaði sem Bankasýsla ríkisins, sem fór þar til í febrúar fyrr á þessu ári með 13 prósenta hlut ríkisins í Arion banka, skrifaði Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, þann 15. janúar síðastliðinn.
Í minnisblaðinu, sem Markaðurinn fékk afhent frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu á grundvelli upplýsingalaga, er jafnframt upplýst um að Guðrún Johnsen, þáverandi varaformaður stjórnar Arion banka, hafi á stjórnarfundi bankans í nóvember 2015 greitt atkvæði gegn sölunni í Bakkavör. Hún lagði síðan til á fundi stjórnar þann 14. nóvember í fyrra að gerð yrði könnun á söluferli eignarhlutarins. Sú tillaga var felld og degi síðar var Guðrúnu tjáð að „breytingar væru fyrirhugaðar á stjórn bankans og [hennar] aðkomu væri ekki óskað“, eins og það er orðað í minnisblaðinu.

Þrefaldaðist í virði
Bankasýslan tekur fram í minnisblaðinu til ráðherra að í kjölfar almenns útboðs á hlutabréfum í Bakkavör og skráningu þeirra í kauphöllina í Lundúnum í nóvember í fyrra hafi komið í ljós að verðmæti eignarhlutar BG12 í matvælaframleiðandanum hafi því sem næst þrefaldast. Virði hlutarins hafi þannig, á tuttugu mánuðum, farið úr 147 milljónum punda í 433 milljónir punda.
Bendir Bankasýslan á að ef verðmæti eignarhlutarins sem BG12 seldi í janúar 2016 hefði verið það sama við söluna og það var við útboðið í nóvember 2017, þá gæti Arion banki hafa farið á mis við um 19,9 milljarða króna og ríkissjóður orðið af um 2,6 milljörðum króna. Það er, að sögn Bankasýslunnar, svipuð fjárhæð og talið er að ríkið hafi orðið af vegna sölu Landsbankans á 31 prósents hlut í Borgun árið 2014, eins og frægt er.
Að auki nefnir stofnunin að það sé „augljóst“ að skömmu eftir sölu BG12 hafi kaupendur hlutanna – Ágúst, Lýður og Baupost – farið að huga að sölu þeirra enda taki það um tólf mánuði að undirbúa almennt útboð og skráningu á hlutabréfum.
Í minnisblaðinu segir Bankasýslan ljóst að stofnunin geti þurft að kalla eftir svipuðum upplýsingum frá Arion banka eins og hún óskaði eftir í Borgunarmálinu til þess að meta hvort umrædd sala hafi verið í samræmi við lög sem gilda um stofnunina og eigendastefnu ríkisins. Ekkert varð hins vegar af því þar sem Kaupskil, dótturfélag Kaupþings og stærsti hluthafi Arion banka, ákvað í febrúar síðastliðnum að nýta sér kauprétt á 13 prósenta hlut ríkisins í bankanum en með sölunni fór ríkið endanlega út úr hluthafahópnum.

Þá er tekið fram í minnisblaðinu að Bankasýslunni hafi þótt nauðsynlegt að spyrja stjórnendur Arion banka nánar um söluna í Bakkavör á fundi vegna fjórðungsuppgjörs bankans um miðjan nóvember í fyrra. „Gat Arion ekki svarað spurningum um hvert söluandvirði hlutanna hafi verið miðað við undirliggjandi rekstrarhagnað,“ segir í minnisblaðinu.
„Þá var ekki ljóst hvort að BG12 eða Bakkavör hafi stýrt söluferlinu á hlut BG12 í Bakkavör, en ferlinu var stýrt af fjárfestingarbanka sem um langt skeið hefur verið nátengdur Bakkavör og er því vel kunnugur stjórnendum félagsins,“ segir Bankasýslan og á þar við breska bankann Barclays.
„Þá er alls ekki ljóst hversu opið ferlið var. Má segja að frá sjónarhóli Bankasýslunnar vakni upp sömu spurningar og í Borgunarmálinu,“ segir í umræddu minnisblaði Bankasýslunnar.
Á meðal þeirra upplýsinga sem Bankasýslan segist mögulega þurfa að kalla eftir er hver hafi haft forræði yfir sölu eignarhlutanna, það er Arion, BG12 eða Bakkavör, hver hafi valið fjárfestingarbanka til að stýra söluferlinu og hvers vegna slík söluaðferð á eignarhlutnum hafi orðið fyrir valinu í stað almenns útboðs á hlutnum og skráningar.
Eins segist stofnunin vilja fá upplýsingar um hverjum hafi verið gefinn kostur á því að bjóða í eignarhlutinn, hve margir hafi tekið þátt í söluferlinu á mismunandi stigum þess, hvaða verðmat hafi verið lagt til grundvallar því að boði endanlegra kaupenda hafi verið tekið og loks hvort aðrir þættir hafi haft áhrif á það að tilboð kaupenda hafi verið tekið.