Leiguverð í Reykjavík er hærra en í öðrum höfuðborgum á Norðurlöndum. Þannig leigist tveggja herbergja íbúð miðsvæðis í Reykjavík á um 190 þúsund krónur á mánuði að meðaltali.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri greiningu frá Leigumarkaðsdeild Íbúðalánasjóðs um íbúðar- og leiguverð í höfuðborgum Norðurlandanna. Þar segir að aftur á móti sé húsnæðisverð í Reykjavík lægra en í flestum höfuðborgum Norðurlandanna.
„Í skýrslunni kemur fram að íbúðaverð í Reykjavík sé lágt í hlutfalli við tekjur miðað við höfuðborgir annarra landa. Hlutfallslega lágt húsnæðisverð á móti háu leiguverði gerir það að verkum að hagstæðara er fyrir fólk að kaupa. Á móti þessu kemur að hátt leiguverð gerir leigjendum erfiðara fyrir að safna sér upp í þá útborgun sem þarf fyrir íbúð.
Hvergi jafn hátt hlutfall ungs fólks í foreldrahúsum
Hátt leiguverð en hlutfallslega lágt húsnæðisverð kann að vera skýringin á háu hlutfalli ungs fólks í foreldrahúsum, en hvergi á Norðurlöndunum er hlutfallið jafn hátt og hér á landi. Um 14% fólks á aldrinum 25-34 ára hér á landi býr í foreldrahúsum á meðan hlutfallið er innan við 6% víðast hvar annars staðar á Norðurlöndunum,“ segir í tilkynningu frá sjóðnum.
Lesa má skýrsluna á heimasíðu Íbúðalánasjóðs.
