Körfubolti

Tony Parker spilar ekki meira með Spurs í úrslitakeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tony Parker borinn af velli í síðasta leik Spurs sem var hans síðasti á þessu tímabili.
Tony Parker borinn af velli í síðasta leik Spurs sem var hans síðasti á þessu tímabili. Vísir/AP
Tony Parker, leikstjórnandi San Antonio Spurs, verður ekki meira með liðinu á þessu tímabili eftir að hafa meiðst illa á hné í síðasta leik liðsins.

Parker þarf að fara í aðgerð á vinstra hné eftir að hafa lent illa í öðrum leik San Antonio Spurs og Houston Rockets í undanúrslitum Vesturdeildarinnar.

Það hefur ekki verið gefið út hvað nákvæmlega gerðist fyrir Parker en það er allavega ljóst að hann spilar ekki meira í úrslitakeppninni.

Þetta eru fyrstu virkilega alvarlegu meiðsli Tony Parker á hans fimmtán ára ferli en hann missti einu sinni úr vegna handarmeiðsla. Þetta er mikið áfall fyrir Spurs sem gæti lent í miklum vandræðum með leikstjórnendastöðuna þar sem eftir lifir úrslitakeppninnar.  Það má búast við því að Ástralinn Patty Mills komi inn í byrjunarliðið fyrir hann.

Spurs vann annan leikinn á móti Houston Rockets  121-93 og jafnaði þar með metin í einvíginu í 1-1. Parker var búinn að eiga mjög góðan leik áður en hann meiddist, skoraði 18 stig og hitt úr 8 af 13 skotum sínum.

Tony Parker er orðinn 34 ára gamall en hann hefur unnið fjóra NBA-titla með San Antonio Spurs eða 2003, 2005, 2007 og 2014.

Parker skrifaði undir nýjan þriggja ára samning árið 2014 en hann fær 15,4 milljónir dollara fyrir næsta tímabil sem er það síðasta í þessum samningi.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×