Handbolti

37 daga einvígi loksins lokið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ágúst Elí varði tvö víti í vítakastkeppninni umdeildu.
Ágúst Elí varði tvö víti í vítakastkeppninni umdeildu. vísir/eyþór
Einvígi FH og St. Pétursborgar í 2. umferð EHF-bikarsins í handbolta lauk loks í gær, rúmum mánuði eftir að það byrjaði.

FH bar þá sigurorð af rússneska liðinu, 3-4, í vítakastkeppni. Sem kunnugt er þurftu FH-ingar að ferðast alla leiðina til St. Pétursborgar til að mæta heimamönnum í vítakeppni.

Ferðin til St. Pétursborgar gekk ekki hnökralaust fyrir sig því besta vítaskytta FH, Einar Rafn Eiðsson, fékk upphaflega ekki sæti í flugvélinni á leiðinni til Rússlands. Hann komst þó á endanum á áfangastað og skoraði úr sínu víti í vítakeppninni.

FH-ingar fengu enga draumabyrjun í vítakeppninni. Viktor Babkin skoraði úr fyrsta víti Rússanna en Ásbjörn Friðriksson skaut í utanverð samskeytin í fyrsta víti FH.

Þá var komið að Ágústi Elí Björgvinssyni, markverði FH. Hann varði tvö næstu víti St. Pétursborgar og eftir að Einar Rafn og Óðinn Þór Ríkharðsson skoruðu úr sínum vítum var FH komið með frumkvæðið.

„Ég hafði ekki áhyggjur. Menn geta klikkað á vítum. Ég hafði trú á markmönnunum okkar, að þeir myndu taka 1-2 víti,“ sagði Halldór Sigfússon, þjálfari FH, í samtali við Fréttablaðið í gær.

Liðin skoruðu bæði úr sínum vítum í 4. umferðinni og Dmitrii Kiselev jafnaði svo metin í 3-3 þegar hann skoraði úr síðasta víti St. Pétursborgar.

Ísak Rafnsson fékk tækifæri til að tryggja FH sigur sem og hann gerði. Þessi mikli FH-ingur sýndi stáltaugar á vítalínunni og skaut sínum mönnum áfram.

Eftir 37 daga einvígi, tvær ferðir til St. Pétursborgar, kærur og alls konar rugl eru FH-ingar komnir áfram í 3. umferð EHF-bikarsins þar sem þeir mæta Tatran Presov, meisturunum frá Slóvakíu.

Það var gott að klára þetta. Vissulega er það miklu skemmtilegra að fara heim með sigur í farteskinu,“ sagði Halldór sigurreifur.


Tengdar fréttir

Halldór: Hafði trú á markmönnunum okkar

Halldór Sigfússon, þjálfari FH, var að vonum ánægður eftir sigur Fimleikafélagsins á St. Pétursborg í umdeildri vítakastkeppni í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×