Körfubolti

Árið 2017 byrjar ekki nógu vel hjá Kanínunum hans Arnars

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Guðjónsson þjálfar lið Svendborg Rabbits.
Arnar Guðjónsson þjálfar lið Svendborg Rabbits. Vísir/Andri Marinó
Lærisveinar Arnars Guðjónssonar í Svendborg Rabbits töpuðu í kvöld á útivelli á móti Team FOG Naestved í dönsku úrvalsdeildinni í körfubolta.

Team FOG Naestved vann leikinn með átta stigum, 86-78, eftir að hafa verið níu stigum yfir í hálfleik, 55-46.

Bandaríkjamaðurinn, , fyrrum leikmaður Njarðvíkur í Domino´s deildinni skoraði 13 stig og gaf 4 stoðsendingar í leiknum en hann hitti aðeins úr 2 af 8 þriggja stiga skotum sínum.

Axel Kárason spilaði í tæpar níu mínútur en náði ekki að skora eða taka frákast. Axel fékk hinsvegar þrjár villur.

Team FOG Naestved var þrettán stigum yfir fyrir lokaleikhlutann en Kanínurnar skoruðu átta fyrstu stig lokaleikhlutans og komu því með smá spennu í leikinn. Þeir héldu þó ekki út og heimamenn unnu nokkuð sannfærandi sigur.

Þetta var mikilvægur leikur í baráttunni um þriðja sæti deildarinnar en Team FOG Naestved náði Svendborg Rabbits að stigum með þessum sigri.

Svendborg Rabbits vann tvo fyrstu leiki liðanna með samtals sjö stigum en Naestved hefur unnið tvo þá síðustu og það með samtals tólf stigum. Team FOG Naestved er því komið upp í þriðja sæti deildarinnar.

Árið 2017 hefur ekki byrjað vel hjá Svendborg Rabbits en liðið hefur nú tapað þremur af síðustu fjórum leikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×