Hlutabréf í Högum hafa lækkað um tæp 4% á fyrsta hálftímanum eftir opnun kauphallarinnar í dag.
Samkeppniseftirlitið hafnaði í gær samruna Haga hf. og Lyfju hf. en þann 17. nóvember 2016 tilkynntu Hagar um kaup á öllu hlutafé í Lyfju.
Fram kemur í tilkynningu að kaupsamningurinn var undirritaður með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Fyrirvörum vegna niðurstöðu áreiðanleikakönnunar var aflétt í apríl síðastliðnum, en Samkeppniseftirlitið hefur nú með úrskurði hafnað samrunanum.
Finnur Árnason, forstjóri Haga, segist reikna með því að forsendur Samkeppniseftirlitsins fyrir ákvörðuninni muni liggja fyrir í dag. Í framhaldi af því mun fyrirtækið taka afstöðu um hvort niðurstöðunni verði áfrýjað til áfrýjunarnefndar.
„Það eru vonbrigði að þetta sé niðurstaðan,“ segir Finnur. En málsmeðferðin tók átta mánuði hjá Samkeppniseftirlitinu. Hagar höfðu ekki tekið við rekstri Lyfju og mun ákvörðunin því ekki hafa áhrif á áður birt reikningsskil félagsins.

