Viðskipti innlent

Svipmynd Markaðarins: Fílar íslenskt rapp í botn

Haraldur Guðmundsson skrifar
Kristín Erla Jóhannsdóttir, forstöðumaður Eignastýringar - þjónustu, hjá Mörkuðum Landsbankans
Kristín Erla Jóhannsdóttir, forstöðumaður Eignastýringar - þjónustu, hjá Mörkuðum Landsbankans
Kristín Erla Jóhannsdóttir er forstöðumaður Eigna­stýringar - þjónustu, hjá Mörkuðum Landsbankans, en hún hefur starfað hjá bankanum frá árinu 2014. Áður var hún hjá Kaupþingi og Arion banka, meðal annars á fjármálasviði, í fjárstýringu, eigin viðskiptum og markaðsviðskiptum. Kristín er með BS-gráðu í viðskiptafræði, hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum, og situr hér fyrir svörum í Svipmynd Markaðarins.

Hvað hefur komið þér mest á óvart það sem af er ári?

Eflaust þessi gríðar­legu áhrif sem Costco hefur haft. Maður finnur vel fyrir því hvað vöruverð hefur lækkað. Þá hafa erlendir birgjar lækkað verð sín til íslenskra verslana út af hinni nýtilkomnu samkeppni. Þar með aukast lífsgæði okkar allra.

Hvaða app notarðu mest?

Ég nota Facebook mest en hef verið að færa mig upp á skaftið á Snapchat undanfarið. Síðan byrjaði ég að nota Endomondo-hlaupaforritið fyrir nokkrum dögum. 

Hvað gerir þú í frístundum þínum?

Ég nýt þess að vera með fjölskyldu minni, eiginmanni og tveimur börnum. Við skötuhjúin erum miklir matgæðingar og elskum að prófa okkur áfram með nýjar uppskriftir. Vinir og vandamenn eru yfirleitt notaðir sem tilraunadýr í matarboðum. Ég hef afar gaman af því að ferðast og ætli Spánn sé ekki í efsta sæti, ásamt Ítalíu. Ég bjó á Spáni í eitt ár og elska landið og menninguna. Þá hef ég mjög gaman af laxveiði og hef verið að fikra mig áfram í golfinu.

Hvernig heldur þú þér í formi?

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki í mínu besta formi í dag. Maður bætti á sig í barneignum en nú finn ég sterka löngun til að koma mér aftur í gott form. Ég hef verið að mæta í danstíma, zumba og tabata-tíma í World Class hjá systur minni, Indíönu Nönnu. Slíkir tímar henta mér afar vel. Inn á milli skelli ég mér út að skokka en þá er afar mikilvægt að vera með góða tónlist í eyrunum.

Hvernig tónlist hlustar þú á?

Ég hlusta á flest og reyni að fylgjast með hvað er vinsælast. Madonna hefur alltaf verið mitt uppáhald, auk þess sem ég er með veikan blett fyrir 80’s tónlist. Síðan hlusta börnin mín mikið á íslenskt rapp. Ég hélt að það væri ekki minn tebolli en ég er farin að fíla það í botn!

Ertu í þínu draumastarfi?

Algjörlega. Ég hef alla tíð verið námshestur, metnaðargjörn og með mikið keppnisskap. Við þetta bætist að ég er mikil félagsvera. Þessir eiginleikar henta minni vinnu vel því þar blandast saman áhuginn á fræðunum og félagslegi þátturinn. Ég hef starfað lengi í bankageiranum og með tímanum jókst áhugi minn á stjórnun. Starf mitt sem forstöðumaður hjá Eignastýringu í Landsbankanum er svo sannarlega draumastarf og ég hlakka til á hverjum morgni að mæta í vinnuna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×