Handbolti

Sex stoðsendinga leikur hjá Janusi Daða

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Janus Daði var duglegur að mata samherja sína.
Janus Daði var duglegur að mata samherja sína. vísir/laufey
Íslendingaliðið Aalborg vann sex marka útisigur á Mors-Thy, 18-24, í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Arnór Atlason skoraði tvö mörk fyrir Aalborg sem er komið upp í 4. sæti deildarinnar. Aron Kristjánsson er þjálfari Aalborg.

Janus var ekki á meðal markaskorara hjá Aalborg en gaf sex stoðsendingar á samherja sína.

Århus lyfti sér upp í 3. sæti deildarinnar með 25-29 sigri á Skanderborg á útivelli.

Róbert Gunnarsson og Sigvaldi Guðjónsson skoruðu tvö mörk hvor fyrir Århus og Ómar Ingi Magnússon eitt. Sá síðastnefndi gaf einnig þrjár stoðsendingar.

Birna Berg Haraldsdóttir átti afar góðan leik þegar Aarhus United vann sex marka sigur á Silkeborg-Voel, 32-26, í dönsku kvennadeildinni.

Birna Berg skoraði sex mörk og gaf þrjár stoðsendingar í leiknum.

Þetta var aðeins annar sigur Aarhus á tímabilinu en liðið er í 10. sæti deildarinnar.

Í sænsku karladeildinni bar Kristianstad sigurorð af Eskilstuna Guif, 28-24. Þetta var fimmti sigur Kristianstad í röð sem er með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar.

Gunnar Steinn Jónsson skoraði eitt mark fyrir Kristianstad en Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað. Ólafur Guðmundsson var fjarri góðu gamni vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×