Handbolti

Aron við AS: Karabatic ætti frekar að finna fyrir pressunni af því að vera líkt við mig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson með Barcelona treyjuna.
Aron Pálmarsson með Barcelona treyjuna. Mynd/Twitter-síða Barcelona
Aron Pálmarsson hefur ekki miklar áhyggjur af því að vera með mikla pressu á sér þegar hann klæðist Barcelona-treyjunni í fyrsta sinn um helgina.  

Aron var mjög afslappaður á blaðamannafundinum þegar hann var kynntur sem leikmaður spænska stórliðsins og leyfði sér meira að segja að slá á létta strengi í svörum sínum við spurningum spænsku blaðamannanna.

David Barrufet er framkvæmdastjóri handboltaliðs Barcelona, og hann hrósaði Aroni mikið og talar um hann sem einn besta handboltamann heims. Við Íslendingar erum sammála því en þegar yfirmaðuri félagsins setur svona pressu á nýjan leikmann þá kallar það vissulega á aukna pressu.

Spænsku blaðamennirnir voru því strax farnir að bera íslenska landsliðsmanninn við hinn franska Nikola Karabatic sem spilaði með Barcelona frá 2013 til 2015. Karabatic vann tíu titla með Barcelona á tveimur tímabilum sínum í Katalóníu.

Aron sagðist ekki verið vitund stressaður yfir því að vera líkt við Karabatic.

„Hann er sá sem ætti frekar að finna fyrir pressunni af því að vera líkt við mig,“ sagði Aron brosandi en bætti svo strax við: „Þetta er nú bara grín hjá mér. Það er gaman fyir mig að vera líkt við svo góðan leikmann en ég er samt ekki mikið að hugsa um aðra leikmenn. Ég spila betur undir pressu. Mér líður betur þannig,“ sagði Aron á fundinum. Spænska blaðið AS skrifaði um þetta.

Barcelona mætir RK Zagreb í Meistaradeildinni á laugardaginn og mun Aron væntanlega spila þá sinn fyrsta leik með félaginu.


Tengdar fréttir

Aron: Draumar rætast

Barcelona kynnti Aron Pálmarsson formlega til leiks á blaðamannafundi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×