Viðskipti innlent

Pósturinn útilokar ekki uppsagnir

Atli Ísleifsson skrifar
Ákveðið hefur verið að fækka dreifingardögum bréfapósts í þéttbýli frá og með 1. febrúar næstkomandi.
Ákveðið hefur verið að fækka dreifingardögum bréfapósts í þéttbýli frá og með 1. febrúar næstkomandi. Vísir/Ernir
Pósturinn útilokar ekki að nauðsynlegt verði að grípa til uppsagna í tengslum við fækkun dreifingardaga fyrirtækisins í þéttbýli.

Brynjar Smári Rúnarsson, forstöðumaður markaðsdeildar Íslandspósts, segir að vonast sé til að hægt verði að komast hjá uppsögnum en útilokar ekki að nauðsynlegt verði að segja upp fólki í einstaka tilfellum þegar fram í sækir. Ekki séu þó neinar uppsagnir fyrirhugaðar um næstu mánaðamót.

„Það er starfsmannavelta hjá okkur og við munum reyna að taka þetta í gegnum hana eins og við getum. Svo eru ýmis tækifæri fyrir starfsfólk innan fyrirtækisins. Það er vöxtur í afhendingu pakka og fleiru, en það er ekkert hægt að útiloka að til þess þurfi að koma í einstaka tilfellum. Við munum hins vegar reyna að koma í veg fyrir uppsagnir og taka þetta í gegnum starfsmannaveltuna,“ segir Brynjar Smári.

Í tilkynningu sem Pósturinn sendi frá sér í morgun kom fram að ákveðið hafi verið að fækka dreifingardögum bréfapósts í þéttbýli frá og með 1. febrúar næstkomandi. Ástæðan sé að bréfum hafi fækkað mjög á undanförnum árum, eða um 52 prósent frá árinu 2007, og heil sjö prósent það sem af er þessu ári.

Alls starfa um 350 bréfberar hjá Póstinum í öllu þéttbýli á landinu, að tímavinnufólki meðtöldu, samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×