Viðskipti innlent

Loka Zöru í Kringlunni

Birgir Olgeirsson skrifar
Versluninni Zöru í Kringlunni verður lokað.
Versluninni Zöru í Kringlunni verður lokað. vísir
Hagar loka fataversluninni Zöru í Kringlunni á morgun. Á sama tíma verður opnuð stærri Zöru-verslun Í Smáralind að sögn Finns Árnason, forstjóra Haga. Í uppgjöri fyrirtækisins sem birt var á þriðjudag kemur fram að Zöru-versluninni í Kringlunni verði lokað en verslunin í Smáralind verði stækkuð og því ekki um fækkun á fermetrum að ræða.

Í uppgjörinu kemur fram að verslunin í Smáralind verði betri, húsnæðiskosturinn sé hagkvæmari og þar með reksturinn einnig.

Hagnaður Haga nam 1.532 milljónum króna á fyrri helmingi rekstrarársins og dróst saman um 30 prósent á milli ára. Hagnaðurinn var 2.161 milljón króna á sama tímabili í fyrra.

Í uppgjörinu kemur fram að lokanir á verslunum spili þar stóran þátt vegna varanlegra breytinga á samkeppnisumhverfinu.

Frá síðasta ári hafa Hagar lokað verslununum Debenhams í Smáralind, Topshop í Kringlunni og Smáralind, lokun matvöruhluta Hagkaups í Holtagörðum, lokun Korpuoutlets og lokun Útilífs í Glæsibæ.

Undanfarin tvö ár hafa Hagar fækkað fermetrum undir verslunarrými um tuttugu þúsund talsins. Áætluð fækkun næstu tvö til þrjú ár er um sjö þúsund fermetrar miðað við sama rekstur.

Hagar hafa fækkað verslunum sínum um 41 frá árinu 2008, úr 88 í 47.

Úr uppgjöri Haga.

Tengdar fréttir

Hlutabréf Haga hríðfalla eftir uppgjör

Hagnaðar smásölufélagsins Haga nam 682 milljónum króna á öðrum fjórðungi rekstrarárs félagsins, frá júní til ágúst, og dróst saman um tæplega 45 prósent á milli ára. Hagnaðurinn var 1.213 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í uppgjöri félagsins sem birt var síðdegis í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×