Körfubolti

Elvar Már: Ég held bara að þetta sé munurinn á milli liðanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson í leiknum í dag.
Elvar Már Friðriksson í leiknum í dag. Vísir/Ernir
Elvar Már Friðriksson fékk að spila mun meira í leiknum á móti Frökkum en í hinum tveimur leikjunum og skoraði meðal annars sína fyrstu þriggja stiga körfu á Eurobasket.

„Þetta var hrikalega erfitt. Við reyndum að hleypa leiknum svolítið upp og keyra á þá en en þeir eru með gríðarlega sterkt lið eins og við vissum,“ sagði Elvar eftir leikinn.

„Þeir refsuðu fyrir hver einustu mistök í dag og hittu svakalega vel. Við sáum hversu góðir þeir eru,“ sagði Elvar en franska liðið er fullt af NBA-leikmönnum og leikmönnum í sterkustu deild Evrópu.

Elvar og fleiri spiluðu meira í dag enda þurfti fleiri fætur til að fylgja leikskipulagi dagsins.

„Við reyndum að hleypa tempóinu upp og keyra hrikalega hratt á þá. Við þurftum því að spila á fleiri mönnum því þetta var þriðji leikurinn í mótinu og það er ákveðin þreyta hjá þeim sem eru búnir að vera að spila meira. Þess vegna var hátt stigaskor,“ sagði Elvar en það voru fleiri sóknir í þessum leik en fyrri tveimur leikjum íslenska liðsins.

„Mér fannst það bara heppnast ágætlega en ég held bara að þetta sé munurinn á milli liðanna,“ sagði Elvar en hvað með framhaldið?

„Við setjum þetta fyrir aftan okkur og förum að einbeita okkur að næsta leik sem er Slóvenía. Við verðum bara að gíra okkur upp og gera allt til þess að vinna,“ sagði Elvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×