Körfubolti

Slóvenar vinna A-riðil með fullt hús stiga

Arnar Björnsson skrifar
Luka Doncic í leiknum í dag
Luka Doncic í leiknum í dag Vísir/getty
Slóvenar kláruðu A-riðil með trompi í morgun og unnu síðasta leik sinn gegn Frökkum. Þeir fara því taplausir áfram í 16-liða úrslitin. Af 24 liðum í keppninni eru aðeins Spánverjar enn taplausir, en þeir eiga eftir að spila lokaleik sinn í riðlakeppninni.

Bæði lið höfðu unnið alla fjóra leikina en Slóvenar með hinn 18 ára Luka Doncic og fyrirliðann Goran Dragic í fararbroddi náðu fljótlega undirtökunum.

Doncic, sem þykir einn efnilegasti körfuboltamaður heims, skoraði 10 stig í 1. leikhluta og Slóvenar voru með 6 stiga forystu að honum lokum. Frakkar áttu í vandræðum með frábæra vörn Slóvena og skoruðu aðeins 13 stig í öðrum leikhluta. Munurinn í hálfleik var 17 stig, 52-35.

Frakkar klóruðu í bakkann í byrjun seinni hálfleiks en Slóvenar voru fljótir að stöðva það áhlaup og keyrðu yfir franska liðið. Þeir komust í 26 stiga forystu fyrir lokafjórðunginn. Þá rumskuðu risarnir í franska liðinu og þjálfari Slóvena þurfti að taka leikhlé þegar Frakkar voru búnir að minnka muninn í 17 stig á þremur fyrstu mínútum leikhlutans.

Frakkar héldu þrátt fyrir það áfram að saxa á forystu Slóvena. Þegar 5 mínútur og 20 sekúndur voru eftir fauk í Evan Fournier sem hellti sér yfir einn dómaranna og var fyrir vikið vísað út úr húsi. Þá voru Frakkar búnir að minnka muninn í 12 stig.

Slóvenar náðu að lokum vopnum sínum á ný og fögnuðu 17 stiga sigri.

Goran Dragic var stigahæstur Slóvena, skoraði 22 stig og hinn frábæri Luka Doncic 15 auk þess að taka 9 fráköst. Nando de Colo var stigahæstur í franska liðinu með 16 stig. Fyrirliðinn Boris Diaw skoraði 13 stig á þeim 24 mínútum sem hann spilaði.

Á eftir mætast Pólverjar og Grikkir í hreinum úrslitaleik um fjórða sætið og um leið sæti í 16-liða úrslitum. Síðasti leikur riðlakeppninnar verður viðureign Íslendinga og Finna sem fer fram klukkan 17:45 og verður að sjálfsögðu í beinni textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×